Húsfyllir á Hafliðadeginum

Húsfyllir var í gær, 16. júlí, í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi þegar Vestfirðingar og Sunnlendingar úr vinahópi Hafliða Magnússonar frá Bíldudal stóðu fyrir samkomu á 77. afmælisdegi hans.

Hafliði lést þann 25. júní 2011.

Gestir komu víða að en trúlega lengst; Bíldælingurinn Hilmar Árnason og kona hans Guðrún Jónasdóttir en þau búa á Höfn í Hornafirði.

Bjarni Harðarson og Ólafur Helgi Kjartansson lásu upp úr bókum Hafliða og sögðu sögur af honum ásamt Bjarkari Snorrasyni.

Birgir Hartmannsson og Þórður Þorsteinsson léku lag eftir Hafliða sem hann samdi og það sigraði í sönglagakeppni fyrir mörgum árum í Vestmannaeyjum. Birgir sagði sögu lagsins og hvernig hann bjargaði laginu og textanum frá gleymsku.

Drukkið var “menningarkakó” að hætti Hafliða með konfekti í boði Vestfirska forlagsins á Þingeyri þar sem Hafliði var liðsmaður alla tíð.

Happdrætti var í lokin og dregin út hefti af “Basil fursta” sem Vestfirska forlagið gefur út og njóta mikilla vinsælda nýrra lesenda og ekki síður þeirra sem lásu Basil fursta á fyrri tíð og fagna endurkomu furstans nú.

Skagfirðingurinn og hagyrðingurinn í Hveragerði, Kristján Runólfsson, var á meðal gesta og orti:
Hér var mikil gleði og gaman,
góðar sögur flugu um borð.
Með Hafliða við hlógum saman,
hann þó sagði ei nokkurt orð.
Sælan ríkir sýnist mér
í sagna og vísna ragi.
enda gott að hafa hér,
Hafliðann í lagi.

Björn Ingi Bjarnason opnaði samkomuna með ávarpi og stýrði síðan.