Húsakort, þrumari og skuggalegheit á söfnunum á Eyrarbakka

Skuggaleg sögustund, ratleikur með nýju húsakorti, kvæðamenn og þrumari úr iðrum jarðar eru meðal þess sem söfnin á Eyrarbakka kynna á safnahelginni um helgina.

Helgin hefst með heillandi kvæðastemmningu í Húsinu í kvöld, föstudagskvöld kl. 20 en þá verður kvæðamannafélagið Árgali með æfingu í stássstofunni. Þessi stund er fyrir alla, unga sem gamla, þá sem vilja taka þátt eða bara hlusta. Þarna skapast upplagt tækifæri til að kynnast okkar fornri sönghefð.

Laugardagurinn er helgaður rúgbrauði en þá verða til sýnis ýmsir gripir sem tengjast rúgbrauði áður fyrr og í okkar samtíma. Kynnt verður verkefnið Hverarúgbrauð sem safnið stendur að. Brauðbakstur virðist smávægileg aðgerð en þegar grannt er að gáð er dýpri meining í bakstri en okkur grunar. Bakari frá Hverabakaríi býður gestum að gæða sér á gómsætu hverarúgbrauði. Þessi dagskrá stendur frá 13-17 í Húsinu. Um kvöldið kl. 19 verður sögustund í Sjóminjasafninu með sagnameistaranum Sigurgeiri Hilmari Friðþjófssyni þar sem hann fer með áheyrendur á skuggalegar slóðir forfeðra.

Nýtt kort um gömlu húsin á Eyrarbakka verður kynnt á sunnudaginn kl. 13 í elsta húsinu á Eyrarbakka. Kortið sýnir allflest gömul hús sem enn standa í þorpinu og veitir innsýn í sögu þeirra. Inga Lára Baldvinsdóttir kynnir útgáfu kortsins og veggspjalds. Dagskráin endar með léttum ratleik fyrir alla fjölskylduna. Gestir fá kort í hendur og þurfa að leysa nokkrar spurningar á leið sinni í Beitningaskúrinn þar sem Hörður skipstjóri er staddur og gefur duglegu fólki glaðning.

Frítt er á alla viðburði og kaffiveitingar í boði safnanna.

Fyrri greinBættur skólabragur með vinnu nemenda
Næsta greinÞjónusta við fatlaða í sveitarfélögum – Líklega fínt, líklega slæmt…