Hús, tónlist, Vesturfarar og söguganga

Útgáfuhátíð, vegleg tónlistardagskrá, sýningaropnun og söguganga verður á dagskrá safnanna á Eyrarbakka um Safnahelgina um næstu helgi, 30. október til 2. nóvember.

Í Húsinu, Byggðasafni Árnesinga, verður vegleg tónlistardagskrá á laugardag kl. 15.00 þar sem Elín Gunnlaugsdóttir tónskáld færir gestum ljúfa tónlist um hús og fugla. Fyrri hluti dagskrár er í flutningi Hildigunnar Halldórsdóttur á fiðlu, Sigurðar Halldórssonar á selló og Arnar Magnússonar á píanó en eftir hlé syngur Gissur Páll Gissurarson við undirleik Arnar.

Fyrr um daginn fer Siggeir Ingólfsson í göngu með gesti og segir frá sjómannslífinu við ströndina. Gangan hefst við Sjóminjasafnið kl. 12.00.

Á sunnudag hefst dagurinn í Húsinu kl. 14.00 með kynningu á nýrri sýningu í safninu. Sagt verður frá fyrstu ferðum Vesturfara frá Suðurlandi og fólkinu sem skildi eftir sig fallega muni sem eru í vörslu safnsins.

Í dagslok verður boðið til samsætis kl. 16.00 vegna útgáfu bókarinnar Húsið á Eyrarbakka sem kom út í sumar. Lýður Pálsson safnstjóri og höfundur bókar mun kynna og lesa upp.

Enginn aðgangseyrir er á dagskráliði, heitt er á könnunni og kartöflukökur og útsæði verður í boði Hússins á sunnudag. Tónlistardagskrá Elínar og Vesturfarasýning eru styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Fyrri greinRangæingar æfa Fullkomið brúðkaup
Næsta greinÍbúðalánasjóður selur tuttugu eignir á Suðurlandi