Húni og Kammertónleikarnir tilnefndir

Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri og Jónas Sigurðsson og áhöfnin á Húna eru meðal tíu verkefna sem tilnefnd eru til Eyrarrósarinnar, viðurkenningar til framúrskarandi menningarverkefna á starfssvæði Byggðastofnunar.

Metfjöldi umsókna var í ár til Eyrarrósarinnar en fjörutíu og sex fjölbreytt verkefni víða um land sóttu um. Eyrarrósin beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Að verðlaununum standa Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík.

Þann 23. janúar næstkomandi verður sagt frá því hvaða þrjú verkefni hljóta viðurkenningu. Eitt þeirra hlýtur að lokum Eyrarrósina, 1.650.000 krónur og flugferðir innanlands frá Flugfélagi Íslands en tvö verkefni hljóta 300.000 króna viðurkenningu og flugferðir frá Flugfélagi Íslands.

Kammer­tón­leikar á Kirkju­bæj­arklaustri er árleg söng­há­tíð sem haldin verður í tutt­ug­asta og fjórða sinn dag­ana 27. – 29. júní í sumar. Á hátíð­inni kemur saman tón­listar­fólk víða af land­inu og er hún ómiss­andi vett­vangur bæði fyrir heima­menn og ferða­menn í Skaft­ár­hreppi sem fá tæki­færi til að njóta lif­andi flutn­ings klass­ískrar tón­listar lista­manna í fremstu röð. Hátíðin leggur jafn­framt rækt við tón­list­ar­upp­eldi yngstu kyn­slóð­ar­innar með tón­list­arsmiðju fyrir börn.

Áhöfnin á Húna er sam­starfs­verk­efni tólist­ar­manna og Holl­vina Húna II. Áhöfnin á Húna vakti mikla athygli síð­ast­liðið sumar þegar Húni II sigldi hring­inn í kringum landið. Haldnir voru 16 tón­leikar í sjáv­ar­byggðum lands­ins. Rík­is­út­varpið fylgdi sigl­ing­unni eftir með beinum útsend­ingum frá tón­leikum áhafn­ar­innar sem og sjón­varps– og útvarps­þátta­gerð þar sem lands­mönnum öllum gafst tæki­færi til að fylgj­ast með ævin­týrum áhafn­ar­innar. Húni II hefur á und­an­förnum árum vakið athygli fyrir áhuga­vert starf í menn­ing­ar­tengdri ferða­þjón­ustu og er sam­starf hans við tón­listar­fólkið í Áhöfn­inni á Húna liður í að efla það enn frekar.

Eyrarrósin verður afhent með viðhöfn laugardaginn 15. febrúar næstkomandi í Menningarmiðstöðinni Skaftelli á Seyðisfirði. Dorrit Moussaieff forsetafrú, verndari Eyrarrósarinnar, afhendir verðlaunin að vanda.

Auk Kammertónleikanna og Húna eru þessir aðilar tilnefndir:
Verksmiðjan Hjalteyri
Hammondhátíð á Djúpavogi
Skrímslasetrið á Bíldudal
Tækniminjasafn Austurlands
Reitir á Siglufirði
Listasetrið Bær í Skagafirði
Kómedíuleikhúsið
Þjóðahátíð Vesturlands

Fyrri greinHelgi Björns mætir í fyrsta sinn á Selfossblót
Næsta greinJólatrjám safnað í Árborg