HÚM leitar að nýju húsnæði

Dúdda, Eyrún og Hanna Siv við opnun HÚM stúdíó á Selfossi í júlí 2021. Ljósmynd/Aðsend

Þann 1. desember næstkomandi verður HÚM stúdíó á Selfossi húsnæðislaust, ef ekki finnst nýtt húsnæði fyrir starfsemina í tæka tíð. Mun þar með tapast dýrmæt aðstaða fyrir listamenn á svæðinu, sem hefur bæði verið vinnustofa og sölurými.

„Við opnuðum HÚM stúdíó í júlí 2021, þannig að við erum búnar að vera hér í rúmt ár. Við missum húsnæðið um næstu mánaðarmót en fengum nokkurra mánaða fyrirvara á því. Það hefur gengið erfiðlega að finna húsnæði. Við höfum reynt að tala við ýmsa aðila með mis góðum viðbrögðum. Sumir svara ekki, aðrir eru allir af vilja gerðir en vita ekki um neitt húsnæði fyrir okkur,“ segir Kristrún Helga Marinósdóttir, ávallt kölluð Dúdda, ein af listamönnunum sem standa að HÚM, í samtali við sunnlenska.is.

Mikilvægt til að menningarlíf geti blómstrað
Dúdda segir að Sveitarfélagið Árborg mætti aðstoða listamenn sem eru búsettir á svæðinu betur. „Við höfum aðeins verið að tala við sveitarfélagið um að finna húsnæði sem hentar fyrir vinnustofur hjá listamönnum, en það eru fyrirmyndir fyrir því til dæmis á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirkomulagið á þannig vinnustofum er þannig að hver er með sitt rými og svo jafnvel eitthvað sameiginlegt rými. Það mætti alveg bæta aðstöðu fyrir listamenn í sveitarfélaginu, til að menningarlíf geti blómstrað eins og annað.“

Fékk strax mjög góðar viðtökur
Þegar HÚM opnaði fyrir rúmu ári síðan varð langþráður draumur þriggja vinkvenna að veruleika; þeirra Dúddu, Hönnu Sivjar Bjarnadóttur og Eyrúnar Guðmundsdóttur. Sáu þær stöllur alfarið sjálfar um að standsetja húsnæðið – rífa niður veggi, múra, slípa, sparsla og mála. Þær hafa því sett hjarta sitt og sál í húsnæðið og skapað þar með einstaka stemningu þar sem góður andi svífur yfir vötnum.

Strax í byrjun fékk HÚM mjög góðar viðtökur. Sumir listamennirnir voru að koma sinni list á framfæri í fyrsta skipti, við gífurlega góðar undirtektir sem hvatti þá til enn frekari dáða. Síðan stúdíóið opnaði hefur það vaxið þétt og dafnað og hefur fólki þótt gott að geta leitað á einn ákveðinn stað þegar það leitar að sunnlenskri list. Það að HÚM missi húsnæðið sitt svona skömmu fyrir jól er því ekki aðeins slæmt fyrir listamennina sjálfa, heldur einnig fyrir þá sem höfðu hug á að gefa sunnlenska list í jólagjöf.

Mikilvægur félagsskapur
Í HÚM eru aðeins listakonur og segir Dúdda að félagsskapurinn sjálfur sé ekki síður mikilvægur en húsnæðið. „Við erum með opið sameiginlegt vinnurými sem nýtist öllum sem eru að leigja hér. Við erum sex listakonur að leigja og svo eru nokkrar fleiri sem eru með verk á veggjum. Í heildina erum við ellefu talsins. Það er okkur mikilvægt að hafa aðstöðu til að vinna að okkar verkum en að hafa félagsskap með konum sem eru allar að gera eitthvað listrænt er rosalega gefandi,“ segir Dúdda að lokum.

Þeir sem vita um húsnæði fyrir þessar öflugu listakonur geta hafa samband með því að senda tölvupóst á contact.humstudio@gmail.com.

HÚM á Instagram

Fyrri greinJarðskjálfti í Mýrdalsjökli
Næsta greinNíundi titill Þóris með norska landsliðinu