Hulda Hlín sýnir í bókasafninu

Í byrjun vikunnar var sett upp lítil sýning á myndum eftir Huldu Hlín Magnúsdóttur listmálara í Bókasafninu í Hveragerði, en hún dvaldi í listamannahúsinu Varmahlíð í Hveragerði nú í júlí.

Hulda Hlín ólst upp í Kaupmannahöfn, París og Reykjavík. Hún lærði málaralist 1999-2004 við Listakademíuna í Flórens, Feneyjum, Bologna og Róm og útskrifaðist með láði frá Listaakademíu Ítalíu í Róm (Accademia di Belle Arti). Hulda Hlín lauk auk þess mastersnámi í listasögu frá Bolognaháskóla 2006 og var mastersritgerð hennar á sviði litafræði /merkingarfræði hins sjónræna.

Litir hafa verið megin viðfangsefni Huldu Hlínar þar sem fjöllum, klettum og persónum bregður fyrir í litskrúðugum expressívum búningi. Hulda Hlín hefur tekið þátt í mörgum samsýningum, bæði í Róm og hér á landi, einnig hefur hún haldið fjölda einkasýninga víða um land. Nánari upplýsingar má finna á www.huldahlin.com.

Síðasti sýningardagur er 14. ágúst, en sýningin er opin um leið og safnið, virka daga kl. 13-18:30 og laugardaga kl. 11-14.

Fyrri greinLjótu hálfvitarnir á Flúðum
Næsta greinElísabet sigraði í Hengilshlaupinu