Hugguleg kvöldstund í Þorlákshöfn

Hljómsveitin GÓSS. Ljósmynd/Aðsend

Næstkomandi sunnudagskvöld mun hljómsveitin GÓSS halda tónleika á Hendur í höfn í Þorlákshöfn.

„Uppistaðan af prógraminu er platan okkar Góssentíð sem við unnum og gáfum út í vor. Á þeirri plötu eru hin og þessi íslensku sönglög, þekkt sem og óþekktari frá ýmsum tímum. Svo blöndum við þessu saman við allskyns erlend dægurlög og úr verður hugguleg kvöldstund,“ segir Sigríður Thorlacius, söngkona hljómsveitarinnar, í samtali við sunnlenska.is.

Þetta er í annað sinn sem hljómsveitin heldur tónleika á Hendur í höfn en uppselt var á tónleikana í fyrrasumar. „Við vorum ótrúlega ánægð í fyrra og nutum þess mjög að spila – og þess vegna komum við aftur. Það var fullur salur, mjög yndislegir gestir og dásamlegt starfsfólk sem tók svo fallega á móti okkur,“ segir Sigríður.

„Tónleikarnir eru bara fyrir alla, konur og kalla – segjum við. Við höfum fengið fólk úr öllum stéttum, af öllum aldri og stærðum og gerðum. Teljum okkur vera með nokkuð góðan þverskurð,“ segir Sigríður að lokum.

Facebook-viðburður tónleikanna

Fyrri greinFjórhjólaslys við Geysi
Næsta greinBjörguðu rútu upp úr Steinholtsá