Hryllilega glæsileg dagskrá á Þollóween

Undirbúningur fyrir skammdegishátíðina Þollóween í Þorlákshöfn er nú í fullum gangi en á hátíðinni verður boðið upp á glæsilega dagskrá sem spannar heila viku, frá mánudeginum 23. október til sunnudagsins 29. október.

Þollóween nefndin, eða „Nornirnar“ eins og þær kalla sig, samanstendur af nokkrum dugmiklum konum sem hafa lagt nótt við dag í sjálfboðavinnu við að undirbúa hátíðina svo hún verði sem glæsilegust.

Viðurstyggileg ljósmyndasýning og ónotaleg sundstund
Formleg opnunarhátíð verður í skrúðgarðinum og við sama tækifæri verður draugagarðurinn opnaður og hefur hann aldrei verið glæsilegri. Garðurinn verður opinn alla vikuna og hægt er að skoða hann og taka þátt í myndabingói hvenær sem fólki hentar. Draugagarðurinn er fyrir alla fjölskylduna og hefur alltaf slegið í gegn.

Félagsmiðstöðin Svítan mun standa fyrir sýningu vel valdra hrekkjavökumynda fyrir krakka í 5.-10. bekk og í Galleríi undir stiganum opnar viðurstyggileg ljósmyndasýning í gær en þar gefur að líta hátt í 300 ljósmyndir frá Þollóween hátíðum frá 2018-2022 ásamt munum sem þrjár nornanna hafa búið til fyrir hátíðina gegnum tíðina. Sýningin verður opin út októbermánuð á opnunartíma bókasafnsins.

Meðal fleiri dagskrárliða má nefna ónotalega sundstund, skyggnilýsingafund, beinagrindaleit og að sjálfsögðu grikk og gott sem verður á föstudeginum en sama dag er búningadagur í leik- og grunnskóla Ölfuss.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend

Draugahúsið hápunkturinn
Hápunktur Þollóween síðustu ár hefur án efa verið Draugahúsið hræðilega. Það er aðeins fyrir þá sem þora og hefur borið á því að sterkustu einstaklingar hafi rekið upp vein og hrunið í gólfið af hræðslu við að ganga gegnum hryllinginn. Í ár verður Draugahúsið staðsett í gömlu Olís versluninni að Óseyrarbraut 6. Nornirnar lofa miklum hryllingi og hræðslu enda er um eitt elsta verslunarhús bæjarins að ræða og eflaust margir draugar á sveimi.

Hátíðinni lýkur svo með hinu árlega Nornaþingi í Versölum laugardagskvöldið 28. október og verður dagskráin þar sérstaklega glæsileg í ár. Nornaþingið er aðeins fyrir nornir svo seiðkarlar verða að finna sér eitthvað annað að gera þetta kvöld.

Þollóween á Instagram

Þollóween á Facebook

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinLeikskólabörnin öflug í fræsöfnuninni
Næsta greinGul viðvörun: Stormur á Suðurlandi