Hrekkjavökuratleikur á Selfossi

Frá Hrekkjavökunni á Selfossi. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Erla G. Sigurjónsdóttir

Á morgun, laugardag, verður haldin hrekkjavökuratleikur á Selfossi. Ratleikurinn verður í hrekkjavökuþema og þarf að lesa vísur, leysa gátur og finna vísbendingar til að komast á endastöð.

Ratleikurinn verður kominn upp um klukkan 13:00 og verður tekinn niður um klukkan 21:00. Fyrsta stöð verður við Hafnartún, sem er stóra bláa húsið við Sigtúnsgarð.

„Guðbjörg Pálsdóttir hefur staðið að stórkostlegum hrekkjavökuratleikjum allt að því ein síns liðs og nánast algjörlega án fjárstyrkja undanfarin ár og ég slóst til liðs við hana og Ingu Birnu, systur hennar,“ segir Helga Guðrún Lárusdóttir, sjálfskipaður fjölmiðlafulltrúi hrekkjavökunnar á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.

Fer með orðið „metnaður“ í nýjar hæðir
Blaðamaður sunnlenska.is reyndi að fá Guðbjörgu sjálfa í viðtal en að eigin sögn hafði hún engar auka mínútur aflögu, þar sem hún var önnum kafin við að skipuleggja ratleikinn fyrir morgundaginn.

„Að þessum ratleik koma þær systur ásamt nokkrum duglegum sjálfboðaliðum, sem hjálpa til við að finna til og útbúa skreytingar og setja upp stöðvar. Guðbjörg fer með orðið „metnaður“ í nýjar hæðir þegar kemur að hrekkjavökunni og eina ástæða þess að ég, sjálfskipaður fjölmiðlafulltrúi hrekkjavökunnar á Selfossi, sit fyrir svörum hér er sú að hún á ekki lausa stund til að sinna neinu öðru, slíkur er metnaðurinn,“ segir Helga Guðrún.

„Fyrirtæki sveitarfélagsins hafa tekið eftir þessum dugnaði og eru farin að sýna lit með styrkjum í formi verðlauna og fjárveitinga og það munar heilmiklu.“

Leita að draugahúsi
Helga Guðrún segir að ratleikurinn sé fyrir alla fjölskylduna. „Þetta getur verið dásamleg, skjálaus stund fyrir fjölskyldur og börnin hafa svo gaman að honum. Við höfum horft til þess frábæra starfs sem á sér stað á hrekkjavökunni í Þorlákshöfn – Þollóween – og okkur langaði að setja upp draugahús eins og þau gera en það tókst ekki að fá viðeigandi húsnæði til þess verkefnis í ár. En nú höfum við heilt ár til að leita að viðeigandi húsnæði svo vonandi gengur það eftir að ári liðnu,“ segir Helga Guðrún.

„Ég hef fulla trú á því að þessi hátíð eigi bara eftir að stækka og batna með árunum og bind vonir við að fleiri fyrirtæki sjái sér fært að styrkja þetta frábæra verkefni á næsta ári svo við getum tekið hrekkjavökuna á Selfossi upp í nýjar hæðir,“ segir Helga Guðrún.

Næstkomandi þriðjudag, á hrekkjavökunni sjálfri, ganga börn svo á milli húsa og safna góðgæti og kallast sá viðburður „grikk eða gott“.

Fyrri greinVeitingastað lokað eftir innbrot og hnífaárás
Næsta greinGrófu sér djúpa holu í upphafi leiks