Hreiðar Ingi staðartónskáld sumarsins

Á laugardaginn kl. 15 hefjast Sumartónleikar í Skálholtskirkju í 39. sinn. Hátíðin stendur yfir í sex vikur, frá næstu helgi og framyfir Verslunarmannahelgi.

Sumartónleikar í Skálholtskirkju hafa verið starfandi síðan 1975 og staðið fyrir tónleikahaldi í Skálholtsdómkirkju í sex vikur á hverju sumri. Hátíðin er sú elsta og stærsta sinnar tegundar á landinu. Hvert sumar sækja milli 3.000 og 4.000 gestir hátíðina, en þeim fer fjölgandi með hverju ári. Það má því segja að hátíðin sé einn stærsti menningarviðburður sem fram fer á Suðurlandi að sumrinu til. Hátíðin hefur skapað sér sess sem mikilvæg tónlistarhátíð á heimsvísu, sérstaklega hvað varðar flutning á tónlist 17. og 18. aldar, en einnig er lagt áherslu á flutning nýrra verka eftir íslensk tónskáld.

Kórtónlist, brass og orgel á opnunarhelgi Sumartónleika
Sumartónleikar verða settir formlega á laugardaginn kl. 15 í Skálholtskirkju. Þar flytur norski kammerkórinn Christians Consort trúarleg norsk þjóðlög ásamt verkum eftir Tallis, Gounod og Bruckner undir stjórn Martin Pearson. Einnig verður flutt nýtt verk eftir Úlfar Inga Haraldsson fyrir brass og orgel. Á seinni tónleikunum sem hefjast kl. 17 verða líka flutt verk eftir Úlfar ásamt verkum eftir Tryggva M Baldvinsson og norska tónskáldið Bjarne Sløgedal. Þar koma fram ungir málmblástursleikarar ásamt Martin Pearson orgelleikara.

Dagskrá sumarsins
Tónleikar hátíðarinnar eru yfir 20 talsins, auk fyrirlestra, guðsþjónusta, barokkvinnustofu og listasmiðju fyrir börn. Meðal þeirra sem fram koma í sumar eru Bristol Bach Choir, Hljómeyki, Nordic Affect, Ágúst Ólafsson barítón, Benedikt Kristjánsson tenór, Guðrún Óskarsdóttir semballeikari, Ian Wilson blokkflautuleikari og prófessor við Guildhall School of Music & Drama ásamt fiðluleikurunum Kathleen Kajoka, Tuomo Suni og Jaap Schröder sem leikur á Sumartónleikum í 21. skipti.

Hreiðar Ingi Þorsteinsson, staðartónskáld sumarsins
Hreiðar Ingi Þorsteinsson gegnir hlutverki staðartónskálds í sumar, en tengsl hans viðSkálholt eru sterk þar sem hann bjó í Laugarási á unglingsárunum. Verk hans verður frumflutt á tónleikum Hljómeykis 13. og 14. júlí kl. 15. Verkið semur hann við gamla kirkjutexta. Hreiðar Ingi nam tónsmíðar og kórstjórn í Listaháskóla Íslands, Jyväskylän Ammattikorkeakoulu í Finnlandi og síðast í Eesti Muusika-ja Teatriaakadeemia í Eistlandi þaðan sem hann útskrifaðist með MA gráðu árið 2011.

Fyrri greinSluppu vel úr veltu
Næsta greinHlaupið á milli jökla