Hrafnhildur og Hallur sýna í Kaupmannahöfn

Tveir sunnlenskir listamenn sýna verk sín á sýningarsvæði Gallerís Foldar á Art Copenhagen listamessunni sem fram fer í Kaupmannahöfn 30. ágúst til 1. september 2013.

Það eru þau Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir á Vestri-Sámsstöðum í Fljótshlíð og Selfyssingurinn Hallur Karl Hinriksson. Auk þeirra sýna Haraldur Bilson og Soffía Sæmundsdóttir á listamessunni en Gallerí Fold mun einnig kynna sérstaklega þrettán aðra listamenn sem eru á vegum gallerísins.

Hrafnhildur Inga málar myndir sem lýsa skýjafari, veðurfari og sjólagi. Hún er mikið náttúrubarn og sækir myndefnið oft á sínar heimaslóðir í Fljótshlíðinni þar sem hún horfir eftir endilangri suðurströndinni þar sem skýin hrannast upp og velta sér eftir sjóndeildarhringnum og eru aldrei andartak eins. Oft er sem himinn og jörð renni saman og lokast yfir höfði manns. Þá birtist sólin augnablik, andartaksljósbrot. Það er meðal annars það sem hún fangar í myndum sínum.

Hallur Karl lauk námi frá École Supérieure d’art de Quimper í Frakklandi árið 2005 og hefur síðan þá unnið að málaralistinni og haldið sýningar á Íslandi. Hallur Karl einbeitti sér í fyrstu að raunsæu landslagsmálverki en hefur síðar fært sig yfir í óhlutbundið málverk. Hann býr nú á Eyrarbakka þar sem hann er með vinnustofu á Litlu-Háeyri.

Á annan tug þúsunda gesta heimsækja Art Copenhagen ár hvert en nú munu nærri 60 gallerí frá mörgum löndum Evrópu og Bandaríkjunum taka þátt í listamessunni.

Fyrri greinFSu/Hrunamenn tefla fram kvennaliði
Næsta greinBorghildur þriðja í 10 km hlaupinu