Gleðistund verður á Kvoslæk í Fljótshlíð, laugardaginn 14. júní klukkan 15:00, þegar Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir listmálari frá Vestri-Sámsstöðum, nú búsett á Sámsstaðabakka í Fljótshlíð kynnir listköpun sína undir fyrirsögninni: Frá hagahliðinu.
Þetta er fjórtánda sumarið sem heimilisfólkið á Kvoslæk, Rut Ingólfsdóttir og Björn Bjarnason, bjóða til menningarviðburða í Hlöðunni hjá sér. Að þessu sinni verða viðburðirnir fimm og er Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir fyrsti listamaðurinn sem kemur fram í sumar.
Hrafnhildur Inga fæddist 19. mars 1946 að Vestur-Sámsstöðum í Fljótshlíð og ólst þar upp. Hún hefur lengst af búið á höfuðborgarsvæðinu en hefur snúið á heimaslóðir á ný og býr nú jöfnum höndum í Garðabæ og á Sámsstaðabakka í Fljótshlíð við bakka Þverár. Hún stundaði myndlistarnám við Myndlistarskóla Reykjavíkur 1978 og 1979, Myndlista- og handíðaskóla Íslands, nú Listaháskóla Íslands, 1980-1984 og lauk þaðan prófi í grafískri hönnun. Árin 1999-2000 bætti hún við sig námi í olíumálun í Myndlistarskóla Kópavogs.
Hrafnhildur Inga hefur eingöngu verið við myndlist undanfarin 25 ár. Hún heldur reglulega einkasýningar í Gallerí Fold auk einkasýninga víðar, m.a. í Hafnarborg árið 2007, Artóteki 2012 og í Vínarborg 2024. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og listamessum víða um heim.
Fjórar aðrar Gleðistundir eru fyrirhugaðar á Kvoslæk í sumar. Meðal þeirra sem koma fram þar eru Eyþór Árnason skáld, Helgi Gíslason myndhöggvari, Aðalheiður M. Gunnarsdóttir söngkona og Guðjón Halldór Óskarsson píanóleikari, auk þess sem vinir Rutar koma fram að venju á lokaviðburðinum í ágúst.