Hr. Eydís og Herbert Guðmunds senda frá sér nýtt lag

Herbert Guðmundsson og Hr. Eydís í hljóðstofu hljómsveitarinnar á Selfossi. Ljósmynd/Aðsend

Hljómsveitin Hr. Eydís, sem sérhæfir sig í bestu 80´s lögunum á vinsælli rás sinni á YouTube, hefur nú tekið skrefið lengra og sendir frá sér frumsamið lag í samstarfi við tónlistarmanninn og 80´s goðsögnina Herbert Guðmundsson.

Lagið heitir „Þú veist það nú“ og útsetningin vísar í áhrif þessa skemmtilega og skrautlega áratugar.

„Það kom enginn annar til greina í þetta lag en Herbert Guðmundsson. Hann sló náttúrulega í gegn með laginu Can´t Walk Away árið 1985, svo hann hefur sterka tengingu við tímabilið. Auk þess er hann frábær söngvari og góður og skemmtilegur samstarfsfélagi,“ segir Örlygur Smári höfundur lagsins og einn meðlima Hr. Eydís.

Textann við lagið gerði hinn hæfileikaríki Sálarmaður, Friðrik Sturluson.

Hljóðblöndun fór fram í Austurríki hjá samstarfsmanni Herberts, Lukas Hillebrand og hljómjöfnun var í höndum Martin Scheer einnig í Austurríki.

Fyrri greinSnýst um að njóta en ekki þjóta
Næsta greinAllir geta teiknað