Hot Chip endurhljóðblandar Daða og Gagnamagnið

Hot Chip-liðar létu að sjálfsögðu gera pixlaðar Gagnamagnsmyndir af sér.

Breska rafpoppsveitin Hot Chip hefur endurhljóðblandað Eurovisionlag Daða og Gagnamagnsins, Think About Things. Lagið kom út á streymisveitum núna á miðnætti.

Hot Chip er Íslendingum að góðu kunn eftir að hafa spilað hér á landi margoft á undanförnum árum og Daði segir að þetta sé mikill heiður fyrir sig.

Lagið kemur út í tveimur útgáfum, sú lengri er 5:17 mínútur að lengd og sú styttri 3:39 mínútur.

„Ég er svo ánægður með þetta. Hot Chip hefur haft mikil áhrif á tónlistina mína síðustu tíu ár og er stór ástæða fyrir því af hverju tónlistin mín hljómar eins og hún gerir í dag,“ segir Daði Freyr, hamingjusamur á Facebook síðu sinni. „Það er svo sannarlega heiður að fá Hot Chip til þess að endurhljóðblanda lagið.“

Meðlimir Hot Chip voru fljótir að heillast af Think About Things en daginn eftir sigurinn í Söngvakeppni Ríkissjónvarpsins deildi Al Doyle, einn meðlima Hot Chip, laginu á Twitter-síðu sinni og var greinilega ánægður með framlag Íslands.

Sem fyrr segir er útgáfa Hot Chip af laginu nú komin á streymisveitur og má hlusta á brot úr því hér að neðan.

Fyrri greinNeyðarástand í Skálholtsdómkirkju
Næsta greinÞrír ærslabelgir blásnir upp í Árborg