Hornleikarinn sem kennir myndlist á daginn og hannar óróa á kvöldin

Ágústa Ragnarsdóttir. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Þorlákshafnarbúanum Ágústu Ragnarsdóttur er margt til lista lagt. Hún kennir myndlist við góðan orðstír við Fjölbrautaskóla Suðurlands, spilar listavel á horn með Lúðrasveit Þorlákshafnar og svo hannar hún líka einstaka englaóróa fyrir jólin – svo fátt eitt sé nefnt.

Frá árinu 2019 hefur Ágústa hannað englaóróa fyrir jólin, til styrktar sinni ástkæru lúðrasveit. Englaóróinn í ár er básúnuengill og er hann tileinkaður einum af stofnendum Lúðrasveitar Þorlákshafnar (LÞ), Ásberg Lárenzínussyni básúnuleikara og menningarfrumkvöðli.

Hugmyndin kviknaði út frá ónýtum vínylplötum
„Ég er auðvitað í lúðrasveitinni og hef gegnt þar stöðu formanns í fjölmörg ár. Í gegnum tíðina höfum við velt fyrir okkur fastri fjáröflun og svo sem ýmislegt verið gert. Það var svo í einu verkefna okkar fyrir nokkrum árum að við höfðum sankað að okkur hundruðum ónýtra vínylhljómplatna sem þjónað höfðu sem skreytingar á viðburði hjá okkur. Þar sáum ég og Katrín Hannesdóttir möguleika, ég sem grafískur hönnuður og hún sem eigandi skiltagerðar. Útkoman varð fyrsti órói LÞ sem ég hannaði og teiknaði og SB skiltagerð framleiddi,“ segir Ágústa í samtali við sunnlenska.is.

Fyrstu prufurnar voru úr vínyl en svo kom í ljós að það var ekki hægt að nýta þann efnivið vegna skaðlegra efna sem í honum eru en vínylplöturnar hruttu af stað hugmynd sem þróaðist yfir í englaóróann sem hann er í dag.

Tónlistarórói frekar en jólaórói
Ágústa segir að viðtökurnar við fyrsta óróanum hafi verið alveg ágætar og hafi staðist væntingar. „Það má eiginlega segja að takturinn hafi haldið sér síðan hvað varðar sölu hvers árs. Það er greinilegt að fólk er farið að safna þessum englum, sem ég nú er frekar farin að kalla englaóróa eða tónlistaróróa fremur en jólaóróa. 2019 óróinn, sem var sá fyrsti, er uppseldur og það gengur á hina.“

Óróarnir eru aldrei eins milli ára en eiga það sameiginlegt að það er engill sem heldur á hljóðfæri. „Fyrsti óróinn sem kom út árið 2019 innihélt trompet. Það var einhvern vegin auðveld ákvörðun þar sem algengt er að sjá engla blása í trompeta í tengslum við ýmislegt jólaskraut. Þar að auki er trompet nokkuð þekkt hljóðfæri og auðunnið í skuggamynd.“

„Trompet heyrir undir málmblásturshljóðfæri. Þess vegna valdi ég hljóðfæri úr hópi tréblásturshljóðfæra árið 2020 og var það saxófónn. Það lá því beint við árið 2021 að fara í þriðja hljóðfærahóp lúðrasveita, slagverkið og litli trommuengllinn leit dagsins ljós. Þá var ég komin hringinn og fór því aftur í málmblásturshljóðfærin í ár og varð básúna fyrir valinu. Það þýðir að næsta ár verður tréblásturshljóðfæri og þar næsta ár slagverk. Á einhverjum tímapunkti mun ég leita í önnur hljóðfæri en eru öllu jöfnu í lúðrasveit.“

Gefur alla sína vinnu
Eðlilega tók lengstan tíma að hanna fyrsta óróann, þar sem Ágústa var að leggja línurnar að útliti sem byggt yrði á. „Ég skal ekki fullyrða um klukkustundirnar á bak við verkið en þær eru þó nokkrar. Ég hef ekki haldið því saman, þar sem ég gef alla þessa vinnu. Síðan fylgir auðvitað ýmislegt annað efni í tengslum við að auglýsa gripinn sem og að hafa hann sýnilegan og aðgengilegan á sölustöðum. Það hanna ég líka. Allt tekur þetta drjúga stund og er mælt í dögum,“ segir Ágústa en þess má geta að allur ágóði af sölu englaóróans fer óskiptur til LÞ.

Skapandi í leik og starfi
Sem fyrr segir þá starfar Ágústa við Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem hún hefur notið mikilla vinsælda meðal nemenda sinna og samstarfsfólks fyrir lifandi og skemmtilega kennslu. Eiga nemendur hennar til að mynda heiðurinn af rómuðum útilistaverkum á veggnum sem liggur á milli FSu og íþróttahússins Iðu.

Ágústa veit sitt hvað um myndlist og hönnun en hún grafískur hönnuður að mennt frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands. „Ég hef starfað við grafíska hönnun allt frá útskrift þaðan árið 1993, bætti svo seinna við mig kennsluréttindum og hef síðastliðin fimmtán ár fært mig æ meira yfir í að kenna listgreinar, hönnun og Fablab. Finnst það ákaflega skemmtilegt,“ segir Ágústa en þess má geta að hún og eiginmaður hennar reka hönnunarstofuna Argh! hönnun og list.

Eins og með margt skapandi fólk þá lætur það ljós sitt skína á fleiru en einu listasviði. Síðastliðin sextán ár hefur Ágústa spilað á horn með LÞ. „Ég byrjaði níu ára að læra á trompet í Laugarnesskóla í Reykjavík og það var mitt hljóðfæri fram eftir öllum aldri. Ég byrjaði í Lúðrasveit Þorlákshafnar um tvítugt en tók mér langa pásu þegar ég flutti á Akureyri eftir útskrift úr MHÍ. Þó ég hafi flutt aftur til Reykjavíkur eftir tvö ár á Akureyri byrjaði ég ekki aftur í LÞ fyrr en ég flutti þangað fyrir 16 árum. Þá var ég spurð hvort ég væri ekki til í að skipta úr trompet yfir á horn, því það vantaði í bassadeildina! Og síðan hef ég verið hornleikari.“

Mikilvæg tekjuöflun
En aftur að englaóróanum. Ágústa segir að þessi fjáröflun sé mikilvæg fyrir LÞ „Öll innkoma er mikilvæg. Það er dýrt að reka svona batterí. Stjórnendalaun, nótnakaup, útsetningar og ýmislegt fleira sem telst til fasts kostnaðar óháð stærð verkefna sem við stöndum í. Englaóróarnir eru orðnir mikilvægir í tekjuöflun okkar. Það léttir heilmikið á að vita af ákveðinni upphæð sem að öllum líkindum mun skila sér til okkar. Allir sem koma að framleiðslu hans gefa sína vinnu, við borgum aðeins fyrir efnið. Það þýðir að lang mestur hluti sölunnar rennur óskiptur til LÞ. Mér reiknast svo til ef ég gef mér að salan í ár verði á pari við síðustu ár að við verðum búin að selja samtals um það bil 1.100 óróa um jólin.“

„Óróarnir eru fallegir þó ég segi sjálf frá, falleg skuggamynd, svartir öðrum megin og gylltir hinum megin og ég veit að margir sem safna þeim hafa þá uppi allt árið, því í raun eru þeir ekkert eitthvað „jóla“ frekar enn annað.“

Óróar til heiðurs góðu fólki
Eins og áður segir er englaóróinn í ár tileinkaður Ásberg Lárenzínussyni sem spilaði með sveitinni í fjöldamörg ár en hefur lágt básúnuna á hilluna vegna aldurs. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem englaóróinn hefur verið tileinkaður kærum félaga.

„Litli trommuengilinn 2021 er tileinkaður minningu Jóhönnu Hólmfríðar Óskarsdóttur sem lést það vor. Hún var í klappstýruliði LÞ alla tíð, móðir eins lúðrafélagans og við andlát hennar afþakkaði fjölskylda hennar blóm og kransa en benti á LÞ ef fólk vildi minnast hennar. Litli trommuleikarinn var hennar uppáhalds jólalag og auk þess var Jóhanna mikið fyrir jólaóróa, átti fjölmarga, tók auðvitað þessari nýjung frá LÞ opnum örmum á sínum tíma og auk þess að kaupa handa sjálfri sér keypti hún líka í jólagjafir og sendi jafnvel út fyrir landsteinana,“ segir Ágústa að lokum.

Englaóróarnir kosta 3.000 krónur og er hægt að nálgast þá með því að senda skilaboð á Lúðrasveit Þorlákshafnar, annað hvort á Facebook eða Instagram eða með því að hafa samband við Ágústu.

Fyrri grein„Fundum það strax að þetta gæti orðið eitthvað“
Næsta grein130 flytjendur á stærstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands