„Höfum heyrt að fólkið í Þorlákshöfn sé frábært“

Hljómsveitin Ylja. Ljósmynd/Eva Schram

Föstudaginn 22. febrúar mun hljómsveitin Ylja halda tónleika á Hendur í höfn í Þorlákshöfn.

„Við höfum heyrt svo frábæra hluti um Hendur í Höfn og tónleika þar, bæði frá fólki sem hefur mætt á tónleika og líka frá tónlistarfólki sem spilað hefur þar,“ segir Gígja Skjaldardóttir, annar helmingur dúettsins Ylju, í samtali við sunnlenska.is.

Tónleikarnir á föstudaginn eru fyrstu tónleikarnir sem eru haldnir á nýju ári á Hendur í höfn. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem Ylja spilar í Þorlákshöfn. „Við höfum hvorugar komið í Þorlákshöfn og erum því mjög spenntar. Við erum líka búnar að heyra að fólkið þarna sé svo frábært og skemmtilegir tónleikagestir,“ segir Gígja.

„Við munum spila helstu lögin af öllum þremur plötunum okkar en hafa þó nýjustu plötuna okkar sem inniheldur íslensk þjóðlög í okkar útsetningu í forgrunni. Við erum líka mjög hrifnar af því að taka cover eða ábreiður af þekktum lögum og setja þau í okkar búning þannig við munum auðvitað henda einhverjum slíkum inn í prógrammið,“ segir Gígja.

„Við erum nokkuð viss um að þetta séu tónleikar fyrir sem flesta. Þetta verður mikill bræðingur af hinu og þessu. Eitthvað fyrir alla og allt fyrir suma,“ segir Gígja að lokum.

Facebook-viðburður tónleikanna

Fyrri greinBikar til Flóaskóla í fyrsta sinn
Næsta greinFyrsta mót Æsku Suðurlands á Flúðum