Hlynur útnefndur sveitarlistamaður ársins

Hlynur Snær Theodórsson, sveitalistamaður Rangárþings eystra. Ljósmynd/hvolsvollur.is

Hlynur Snær Theodórsson er sveitarlistamaður Rangárþings eystra árið 2022. Hlynur fékk viðurkenninguna afhenta á Kjötsúpuhátíðinni sum síðustu helgi en hann fékk að gjöf veglega körfu í boði SS og 50.000 krónur frá Rangárþingi eystra.

Markaðs- og menningarnefnd sveitarfélagsins óskaði eftir tilnefningum til sveitarlistamanns Rangárþings eystra nú í lok sumars og bárust fjölmargar tilnefningar frá íbúum sem vert er að þakka fyrir. Eitt nafn stóð þó upp úr og var það samhljóma álit nefndarinnar að Hlynur Snær skyldi hljóta þessa viðurkenningu í ár

Hlynur hefur verið duglegur að syngja og spila við hin ýmsu tækifæri, bæði innan Rangárþings eystra sem og utan. Hlynur og fjölskylda hans héldu m.a. úti mjög skemmtilegum útsendingum i streymi einu sinni í viku á Covid tímum. Í streyminu tóku þau við óskalögum og skemmtu sér og öðrum á erfiðum tímum.

Hlynur var hluti af teymi Sumarlandans á RÚV í sumar þar sem hann var með innslög og söng íslensk dægurlög, einn eða með dætrum sínum þeim Brynju Sif og Sæbjörgu Evu. Hlynur hefur verið í Karlakór Rangæinga um árabil og í sönghópnum Öðlingum og hann hefur samið fjöldann allan af lögum og textum, bæði fyrir sjálfan sig en einnig fyrir kórinn.

Fyrri greinMatarkistan opnuð um helgina
Næsta greinVISS fékk viðurkenningu fyrir framlag til umhverfismála