Hlýir og fallegir vettlingar fyrir veturinn

Vettlingar frá Vorsabæ er ný bók frá Bókaúgáfunni Sæmundi frá Selfossi. Bókin er aðgengileg og geymir yfir 50 fjölbreyttar vettlingauppskriftir eftir mæðgurnar Emelíu Kristbjörnsdóttur og Valgerði Jónsdóttur.

Í bókinni eru uppskriftir að belgvettlingum, fingravettlingum, reiðvettlingum og þversum prjónuðum vettlingum, og bæði er lýst hefðbundnum aðferðum og ýmsum tilbrigðum þegar kemur að þumli, stroffi og úrtöku. Víða eru fleiri en ein útfærsla á hverri uppskrift auk þess sem gefinn er fjöldi ábendinga um hvernig megi útfæra vettlingana eftir smekk þess sem prjónar.

Flestar uppskriftirnar í bókinni eru fyrir lopa og léttlopa en einnig má þar finna vettlinga sem prjónaðir eru úr kambgarni og ullargarni. Suma vettlingana hafa mæðgurnar prjónað á ættingja og vini á öllum aldri áratugum saman en aðrir eru glæný hönnun.

Báðar miðla mæðgurnar af mikilli reynslu þegar kemur að prjónaskap: Emelía er húsmóðir í sveit og hefur verið síprjónandi í 70 ár og Valgerður er textílkennari með áratugareynslu af kennslu í grunn- og framhaldsskólum.

Í Vettlingum frá Vorsabæ finna bæði byrjendur og þaulvant prjónafólk eitthvað við sitt hæfi og einföldustu uppskriftirnar er upplagt að nota til kennslu í skólum. Greinargóðar leiðbeiningar eru gefnar um helstu kúnstirnar á bak við vettlingaprjón auk þess sem skýrar og skemmtilegar ljósmyndir fylgja öllum uppskriftunum. Markmiðið með bókinni er að kveikja prjónaáhuga og hvetja fólk til að prjóna og hanna sína eigin vettlinga.

Fyrri greinMörkunum rigndi á Selfossi
Næsta greinFyrstu réttir 6. september