Selfossþorrablótið, hið 23. í röðinni, verður haldið laugardagskvöldið 24. janúar í íþróttahúsi Vallaskóla og eins og venjulega verður öllu til tjaldað.
Snillingurinn Gísli Einarsson verður veislustjóri af sínum alkunna og íhaldssama sið, Ási Guðna grínisti verður með uppistand og þorrahlaðborðið mun svigna af öllu því besta sem sunnlenskir framleiðendur kunna best í þorramat.
Á eftir eru það Stefán Hilmarsson stórsöngvari og hljómsveitin Stuðlabandið sem spila fyrir dansi en áður en þeir stíga á sviðið verður heldur betur slegið í klárinn því hljómsveitin Lótus frá Selfossi mun þá troða upp í sinni upprunalegu mynd. Þeir Kjartan Björnsson, Hilmar Hólmgeirsson, Gunnar Árnason, Hróbjartur Eyjólfsson og Stefán Hólmgeirsson sem leysir bróðir sinn Heimi af, og munu spila eins og þeir gerðu hvað best í Selfossbíó, Aratungu og Árnesi þegar þeir voru upp á sitt besta.
Hljómsveitin Lotus hefur ekki komið saman í 20 ár fyrr en þeir stungu saman nefjum í 60 ára afmæli Kjartans í fyrra og þá var eins og hljómsveitin hefði engu gleymt .
Sérstakur samstarfsaðili Selfossþorrablótsins í ár er knattspyrnudeild Selfoss. Miðasala hófst síðastliðinn föstudag á hvita.is og er miðaverðið 13.900 krónur. Það er ódýrasta bæjarþorrablót landsins samkvæmt Verðlagsvakt ASSÍ (Alþýðu-stuð-sambandi Íslands).


