Hljómlistarfélagið undirbýr plötuútgáfu

Eins og hefð er fyrir á bóndadaginn tæmdi Hljómlistarfélag Hveragerðis bankabókina og úthlutaði styrkjum til tónlistarlífsins í bænum.

Þetta er fjórða árið í röð sem Hljómlistarfélagið styrkir tónlistarfólk í Hveragerði en í gær afhenti félagið tuttugasta styrkinn. Á þessum fjórum árum hafa formenn félagsins dælt vel á fjórðu milljón króna út í hagkerfið. Félagið stendur fyrir þremur uppákomum á ári; Vorfagnaði, dagskrá á Blómstrandi dögum og hinu árvissa Sölvakvöldi. Ágóðinn fer allur í styrki sem er úthlutað eftir geðþóttaákvörðun formanna félagsins.

Þrír styrkir voru veittir í gær. Söngsveit Hveragerðis fékk 80 þúsund króna styrk, Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands 50 þúsund króna styrk og fiðlusnillingurinn efnilegi, Chrissie Telma Guðmundsdóttir, fékk einnig 50 þúsund króna styrk.

Fjórða styrknum í ár, og þeim stærsta, verður varið í hljómplötuútgáfu sem Hljómlistarfélagið mun standa fyrir á árinu. Fjölmargir listamenn úr Hveragerði munu leggja þessu verkefni lið og meðal lagahöfunda á plötunni eru Magnús Þór Sigmundsson, Heimir Eyvindarson og Hallgrímur Óskarsson. Félagið leitar nú að félagasamtökum sem samstarfsaðila að þessu verkefni til þess að selja plötuna og njóta ágóðans af sölunni.

Menningar- og styrkjahátíðin var að vanda létt og skemmtileg. Kór eldri borgara, Hverafuglarnir, flutti nokkur lög eins og hefð hefur verið fyrir en auk þess lék Chrissie Telma á fiðluna. Að lokum komu fimm formenn félagsins sjötta formanninum, Sölva Ragnarssyni, á óvart með því að syngja til hans lag en Sölvi varð sextugur í árslok 2011.

Boðið var upp á veitingar, meðal annars hákarl og brennivín, sem gestir kunnu vel að meta.