Hljómeyki flytur verk Hreiðars Inga

Á Sumartónleikum í Skálholti í dag kl. 15 mun Hljómeyki flytja verk Hreiðars Inga Þorsteinssonar, staðartónskálds.

Kl. 17 flytja Sigurður Halldórsson og Dean Ferrell tónlist fyrir tenór- og bassafiðlur.

Á morgun, sunnudaginn 14. júlí kl. 15, verður dagskrá Hljómeykis með verkum Hreiðars Inga endurtekin.

Sumartónleikar hafa lagt áherslu á að flytja annars vegar það elsta og hinsvegar það yngsta sem völ er á. Því ákvað staðartónskáld að textaval fyrir tónleika Hljómeyki skyldi einnig þannig farið. Frumflutt verður tónsetning við elstu íslenku þýðinguna af Drottinn er minn hirðir úr Guðbrandsbiblíu. Verkið Messa á móðurmáli, sem frumflutt verður á Sumartónleikum, mun styðjast við elstu heimildir um íslenskan messutexta.

Meðal nýrri texta sem frumfluttir verða má nefna mótettuna Friðarbæn eftir Frans frá Asissí, í nýrri þýðingu Jóhönnu Bjarkar Guðjónsdóttur. Ýmis eldri verk verða einnig flutt í nýjum búningi, s.s. Stóð við krossinn, þýðing Mattíasar Jochumssonar á latneska textanum Stabat mater.

Tónskáldið Hreiðar Ingi Þorsteinsson er einnig menntaður tónmenntakennari, söngvari og kórstjóri. Hann lærði á Íslandi, í Finnlandi og nú síðast í Eesti Muusika-ja Teatriaakadeemia í Eistlandi en þaðan lauk hann MA gráðu í tónsmíðum.

Þróun bassa-strokhljóðfæranna kynnt
Á tónleikum Sigurðar Halldórssonar og Dean Ferrell er hin ríka og áhugaverða þróun bassa-strokhljóðfæranna kynnt fyrir áheyrendum, og á hún einnig að vekja forvitni þeirra um sögu hljóðfæranna í víðari skilningi, t.d. hvað varðar byggingarlist þeirra, sem og þeim stærðfræði- og vísindalega grunni sem að baki þeim liggur. Bassahljóðfærin þróuðust vegna þess að tónlistarumhverfið breyttist. Tvenns konar „umhverfi“ er um að ræða, annars vegar tónlistin sjálf, með sífellt auknum fjölda nótna sem hægt var að spila og hins vegar húsakynnin þar sem tónlistin var flutt, en þau þróuðust úr endurreisnar- í barokkstíl og fóru jafnt og þétt stækkandi.

Efnisskráin varpar líka ljósi á sögu bogans, frá því hann var fyrst fundinn upp til veiða eða til að kveikja elda og bora í hörð efni – hvernig hann þróaðist út í strengja-, og síðar strokhljóðfæri.

Fyrri greinGítartónlist og álfheimafræðsla á Sólheimum
Næsta greinÞjóðsaga frumflutt í Sögusetrinu