Hlátur er allra meina bót

Um síðustu helgi frumsýndi Leikfélag Selfoss breska farsann Bót og betrun eftir Michael Cooney. Verkið segir frá leigusalanum Eric Swan sem grípur til bótasvika þegar hann missir vinnuna.

Svikin vinda smám saman upp á sig en málin fara fyrst algjörlega úr böndunum þegar Eric reynir að losna af bótum með tilheyrandi vandræðum. Bót og betrun er farsi af bestu gerð þar sem flækjurnar eru miklar og aðstæðurnar oft æði pínlegar. Atburðarrásin er hröð og málin flækjast hratt, svo hratt að áhorfandinn á oft í mestum vandræðum að fylgjast með nýjasta útspili Eric Swan.

Aðalhlutverkin eru í höndum Guðmundar Karls Sigurdórssonar og Stefáns Ólafssonar. Fara þeir listavel með sín hlutverk, koma textanum vel til skila og leika gjörsamlega með hverri einustu frumu líkamans.

En það eru ekki bara Guðmundur og Stefán sem fara á kostum í sínum hlutverkum – Baldvin Árnason í hlutverki Dr. Chapman og Bessi Theodórsson í hlutverki Hr. Jenkins eru báðir einkar skemmtilegir í sínum hlutverkum og er hrein unun að fylgjast með þeim á sviðinu.

Aðrir leikarar í sýningunni standa sig einnig með mikilli prýði. Leikstjóri verksins er Jón St. Kristjánsson en er þetta í fimmta sinn sem hann leikstýrir hjá Leikfélaginu. Það er augljóst að Jón hefur unnið feikigott starf með leikhópinn og náð að laða fram það besta í hverjum og einum sem skilar sér svo aftur í heildstæðri og vandaðri sýningu.

Það er ekki auðvelt að setja upp farsa á borð við Bót og betrun. Hraðinn er mikill, textinn er bæði mikill og flókinn og ekkert má klikka. Þarna skiptir samspil leikaranna miklu máli og mótleikurinn er ekki síður mikilvægur en leikurinn sjálfur.

Það er auðvelt að gleyma stund og stað í öllum hamagangnum á sviðinu. Áhorfendur á frumsýningu ætluðu varla að trúa því að það væri komið hlé á sýningunni – svo hratt og vel gekk hún. Hvergi dauðir kaflar, engin atriði óþörf, allt sem var sagt og gert skipti mál. Sem sé, heildstæð, góð og síðast en ekki síst, metnaðarfull sýning.

Bót og betrun kitlar svo sannarlega hláturtaugarnar. Undirrituð var farin að hafa virkilegar áhyggjur af því að sumir áhorfendur myndu bókstaflega deyja úr hlátri, svo mikið var hlegið. Hlátrasköllin voru nær stanslaus alla sýninguna og ekki að ástæðulausu. En sem betur fer dó nú enginn og áhorfendur lengdu eflaust líf sitt um nokkur ár með öllum hlátrinum.

Að lokum má ég til með að hrósa leikmyndinni sem er sérlega vönduð og skemmtileg. Góð leikmynd er ramminn utan um gott leikrit og saman er þetta tvennt sannkallað listaverk.

Til hamingju Leikfélag Selfoss með stórglæsilega sýningu. Enn og aftur hafið þið sýnt að þið eruð ekkert venjulegt áhugaleikfélag. Takk fyrir mig.

Jóhanna S. Hannesdóttir