Hjálmfríður Þöll syngur „Sofðu rótt“

Út er kominn geisladiskurinn „Sofðu rótt“ þar sem söngkonan Hjálmfríður Þöll Friðriksdóttir syngur vögguvísur án undirleiks.

Diskurinn inniheldur 27 vel þekktar íslenskar og þýddar vögguvísur, s.s. Sofðu rótt, Bí, bí og blaka, Sofðu unga ástin mín, Bíum, bíum bambaló, Hvert örstutt spor og margar fleiri. Allur ágóði af sölu geisladisksins rennur til Umhyggju, styrktarfélags langveikra barna.

„Hugmyndin kviknaði eftir að ég eignaðist minn fyrsta barn, árið 1998. Þá fannst mér vanta geisladisk með íslenskum vögguvísum,“ segir Hjálmfríður Þöll í samtali við sunnlenska.is. „Ég fór í stúdíó árið 2008 og nú er draumurinn loksins orðinn að veruleika,“ segir Þöll sem starfar sem söngkennari í Næstved á Sjálandi. Þar kennir hún djass-, popp- og rokksöng auk þess að kenna börnum frá 1 til 8 ára tónlist, söng og hreyfingu.

Hjálmfríður Þöll ólst upp í Rangárvallasýslu, og gekk í skóla á Hvolsvelli. Foreldrar hennar voru þau Friðrik Guðni Þórleifsson, skáld og tónlistarkennari, og Sigríður Sigurðardóttir, tónlistarkennari og skólastjóri Tónlistarskóla Rangæinga. Þöll ólst upp við söng, hljóðfæraleik og tónlistargleði frá fæðingu, lærði á píanó og básúnu og söng í barnakór.

Hjálmfríður Þöll kemur til Íslands í lok júlí og kemur fram á nokkrum stöðum til að syngja nokkur lög og selja og árita plötuna.

Nánari upplýsingar má fá á heimasíðu Hjálmfríðar Þallar og á Facebook.

Fyrri greinNýr landvarðarbústaður í Blágiljum
Næsta greinNý gönguleið á Fimmvörðuhálsi