Hjálmar útnefndur sveitarlistamaður Rangárþings eystra

Hjálmar tók við verðlaununum á Kjötsúpuhátíðinni. Ljósmynd/Rangárþing eystra

Hjálmar Ólafsson, húsasmíðameistari á Hvolsvelli, var útnefndur sveitarlistamaður Rangárþings eystra 2023 á Kjötsúpuhátíðinni á Hvolsvelli um síðustu helgi.

Hjálmari er margt til lista lagt en hann hefur skapað hina fegurstu listmuni, miðlað þekkingu sinni til ungra og aldinna og hefur unnið að uppbyggingu viðhaldi á gamalli byggingararfleið.

Hjálmar er mikill hagleiksmaður og er einstaklega listrænn þegar kemur að því að meðhöndla og skera út í tré. Hann hefur undanfarin ár búið til ýmsa fallega gripi, jólaskraut, bakka og fleira í þeim dúr en einnig skorið út íslensku húsdýrin sem glatt hafa börn enda ákaflega vel gerð.

Hjálmar hefur kennt í Hvolsskóla en einnig kennt smíði og útskurð hjá eldri borgurum sem njóta þekkingar hans og handleiðslu og það má sjá á sýningum á handverki eldri borgara að Hjálmar hefur leiðbeint vel. Þess má einnig geta að hann vann ásamt fleirum að uppbyggingu á Gamla bænum í Múlakoti og þar hafa hæfileikar hans og nákvæmni notið sín vel.

Christiane L. Bahner, formaður markaðs- og menningarnefndar sveitarfélagsins, afhenti Hjálmari verðlauninin og lagði Sláturfélag Suðurlands til veglega gjöf til listamannsins.

Fyrri greinGrenndarstöðinni á Eyrarbakka lokað
Næsta greinÍsold Assa Íslandsmeistari í sjöþraut stúlkna