Hitað upp fyrir Sumartónleika

Upphitunartónleikar fyrir Sumartónleika í Skálholti verða haldnir sunnudaginn 28. júní kl. 17:00 í Skálholtskirkju.

Þá leikur Skálholtskvartettinn verk eftir Boccherini, Schubert og Haydn í tilefni af 90 ára afmæli Jaap Schröders, fiðluleikara.

Framundan er fyrsta tónleikasumarið hjá nýju listrænu teymi Sumartónleika í Skálholti. Í því sitja Sigurður Halldórsson, fráfarandi listrænn stjórnandi, Hugi Guðmundsson, tónskáld og Elfa Rún Kristinsdóttir, fiðluleikari. Með þessu nýja teymi er það von hátíðarinnar að Sumartónleikar í Skálholti gangi í endurnýjun lífdaga, m.a. með aukinni áherslu á ungt tónlistarfólk. Í áætlunum hátíðarinnar hefur teymið metið listrænt hlutverk hátíðarinnar með gömul gildi í huga, en einnig gefið nýjum hugmyndum verðskuldaðan sess.

Hollvinir Sumartónleika í Skálholti standa fyrir kynningu á dagskrá sumarsins í Sölvhóli, tónleikasal Listaháskóla Íslands við Sölvhólsgötu, fimmtudaginn 2. júlí kl. 20:30. Kór Listaháskóla Íslands kemur fram og Sigurður Halldórsson kynnir dagskrána. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Fyrstu helgina í júlí hefst svo dagskrá sumarsins á samstarfsviku Sumartónleika í Skálholti og Listaháskóla Íslands. Þá dvelja nemendur í Skálholti og vinna með franska barokkhópnum Nevermind. Hópurinn mun bæði standa fyrir námskeiði og sameiginlegum tónleikum með nemendum úr LHÍ, sem og leika tónleika með eigin dagskrá. Laugardaginn 4. júlí kl. 15 flytja nemendur LHÍ svítu úr óperu eftir Elizabeth-Claude Jacquet de La Guerre ásamt Nevermind, en kl. 17 verða tónleikar franska hópsins þar sem flutt verður m.a tónlist eftir Telemann, Couperin og Guillemain.

Listaháskóli Íslands sér einnig um dagskrá sunnudagsins 5. júlí. Klukkan 14 flytur Þorgrímur Þorsteinsson erindi byggt á BA lokaverkefni sínu í Skapandi tónlistarmiðlun, þar sem myndað var teymi flytjenda, tónskálda og framleiðenda um hljóðritanir, miðlun og útgáfu á nýrri tónlist. Í framhaldi af erindinu heldur Kór Listaháskóla Íslands tónleika með verkum nemenda úr skólanum kl. 15, en stjórnendur verða Steinar Logi Helgason, Sigurður Árni Jónsson og Sigurður Halldórsson.

Staðartónskáld sumarsins og nýstofnað barokkband
Staðartónskáld 2015 verða að þessu sinni tvö. Annars vegar mun kammerkórinn Hljómeyki flytja verk Stefáns Arasonar helgina 11. – 12. júlí og hins vegar mun Finnur Karlsson semja verk fyrir hið nýstofnaða Barokkbandið Brák. Bandið er skipað ungu fólki og mun fyrst um sinn verða sett upp í vinnustofuformi þar sem markmiðið er að þjálfa unga hljóðfæraleikara í upprunalegum flutningi eldri tónlistar. Elfa Rún Kristinsdóttir mun leiða bandið á þessum fyrstu tónleikum hópsins. Auk frumflutningsins flytur bandið franska barokktónlist og fær liðsauka frá þeim Ellu Völu Ármannsdóttur og Emil Friðfinnssyni sem munu leika á náttúruhorn. Tónleikar Barokkbansins Brákar verða 16. og 18. júlí.

Írsk og skosk þjóðlagatónlist
Söngtríóið White Raven mun heimsækja Skálholt og flytja írsk og skosk þjóðlög þann 25. júlí. Einnig tekur tríóið þátt í flutningi á Mjög hneigist þar til mannslundin hrein eftir Huga Guðmundsson með Hildigunni Einarsdóttur altsöngkonu og hópi íslenskra hljóðfæraleikara. Hópurinn mun einnig flytja tónlist eftir Snorra Sigfús Birgisson og Claudio Puntin.

Barokk í bland við nýja tónlist
Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari og Elina Albach semballeikari koma fram á fjölbreyttum tónleikum þar sem þær flétta saman tónlist frá afar ólíkum tímum og stöðum. Tónleikarnir eru nefndir eftir verkinu Continuum eftir György Ligeti, en þeir verða fluttir fimmtudaginn 9. júlí og laugardaginn 11. júlí. M.a. verða flutt verk eftir J.S. Bach, G.A.P. Mealli, James Dillon og Sciarrino.

Fimmtudaginn 23. júlí leikur franski hópurinn Corpo di Strumenti fiðlusónötur eftir einn villtasta og áræðnasta könnuð fiðlunnar, hinn tékknesk-austurríska Heinrich Ignaz Franz von Biber.

Sumrinu lýkur um verslunarmannahelgina með heimsókn frá Nordic Affect og dagskrá sem byggist á rannsóknum Höllu Steinunnar Stefánsdóttur, listræns stjórnanda hópsins, í Bibliothèque nationale de France í París. Verkefninu er ætlað að beina sjónum að hlutverki kvenna í sögunni. Tónleikarnir bera yfirskriftina HÚN/SHE, en á dagskrá verður barokktónlist sem búin var til útgáfu af fremstu nótnariturum Frakklands og gefin út af einum helsta útgáfurisa Parísar um miðbik 18. aldar. Með hópnum kemur fram Eyjólfur Eyjólfsson, tenór.

Allar nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu hátíðarinnar.

Fyrri greinSigrún meðal styrkþega
Næsta greinGrænuhlíð fékk umhverfisverðlaun