Hinn fullkomni meðalvegur Moses Hightower

Andri Ólafsson, bassaleikari og söngvari Moses Hightower. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hljómsveitin Moses Hightower heldur sína fyrstu tónleika í Árnesþingi á morgun laugardag, þegar sveitin stígur á stokk á Sviðinu í miðbæ Selfoss.

Að sögn Andra Ólafssonar, bassaleikara og söngvara, eru hljómsveitarmeðlimir spenntir fyrir því að koma fram á Sviðinu. Hann er fulltrúi Suðurlands í hljómsveitinni, frá Stóru-Hildisey í Landeyjum.

„Það er rétt, hinir eru ýmist Skandinavar eða borgarbörn. Það er ég sem er keeping it real, held jarðtengingunni og mun vísa þeim veginn austur fyrir fjall,“ sagði Andri í samtali við sunnlenska.is.

Bæði sveitt og artí
Tónleikagestir mega eiga von á öllum þekktustu lögum hljómsveitarinnar á tónleikunum, ásamt einhverju nýju efni.

„Það verður gott jafnvægi í prógramminu, sem mun skemmta bæði okkur og tónleikagestum. Við erum búnir að spila nokkrum sinnum í vetur og prófa nýja staði, taka bæði sveitt og artí gigg og ég held að tónleikarnir á Sviðinu muni feta hinn fullkomna meðalveg þar á milli,“ bætir Andri við.

„Þannig viljum við hafa það. Við viljum ekki taka okkur of hátíðlega en að sama skapi vill maður ekki að umhverfið þvælist fyrir manni. Við erum spenntir fyrir Sviðinu. Það er draumur músíkantsins að hafa vel hljómandi stað af heppilegri stærð á heppilegum stað. Þetta er vítamínsprauta fyrir tónleikalífið á Suðurlandi,“ segir Andri og bætir við að Þórir Jóhannsson, eigandi Sviðsins, hafi lagt hart að þeim að koma á Selfoss og bandið hafi tekið því vel.

„Þórir hefur alltaf fylgst mjög vel með okkur og við voru með allra fyrstu böndunum sem hann reyndi að fá á Sviðið. Við vildum að sjálfsögðu mæta við fyrsta tækifæri – og það er núna. Það er óhætt að segja að það sé gríðarlegur spenningur hjá hljómsveitinni,“ segir Andri.

Með mörg járn í eldinum
Meðlimir Moses Hightower eru allir með fleiri tónlistarverkefni í fanginu og það er nóg framundan.

„Það er í þessum töluðu orðum verið að klára smá mynd um hljómsveitina og nýjustu plötuna. Framundan eru verkefni með Cell 7 og annað með Frikka Dór, GDRN og Stórsveit Reykjavíkur. Annars finn ég það á mér og félögum mínum að við erum að gírast upp í að gera aðra plötu. Við erum allir í mörgu en núna förum við að detta inn á þá bylgjulengd að skapa eitthvað nýtt. Andinn er að hellast yfir okkur,“ segir Andri að lokum.

Miðasala á tónleikana er í fullum gangi hér.

Helstu persónur og leikendur á tónleikum Moses Hightower: Andri Ólafsson – bassi og söngur, Magnús Jóhann Ragnarsson – hljómborð og slagverk, Rögnvaldur Borgþórsson – gítar og bakraddir, Steingrímur Karl Teague – hljómborð og söngur og Magnús Trygvason Eliassen – trommur.
Fyrri greinFinnst rosalega erfitt að slaka á
Næsta greinÍsak til Íslandsmeistaranna