Himininn er nálægt þér

Hin árlega tónlistarhátíð, Englar og menn í Strandarkirkju hefst sunnudaginn 2. júlí nk. og stendur yfir í júlímánuði með tónleikum á sunnudögum kl. 14.

Á fyrstu tónleikunum koma fram Björg Þórhallsdóttir sópran, Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Elísabet Waage hörpuleikari og Hilmar Örn Agnarsson organisti. Yfirskrift tónleikanna er „Himininn er nálægt þér“ en á efnisskránni eru m.a. þjóðlög eftir Benjamin Britten ásamt innlendum og erlendum sönglögum eftir m.a. Gylfa Þ. Gíslason, Tryggva M. Baldvinsson, Þórunni Guðmundsdóttur, Inga T. Lárusson og fleiri, ásamt þekktum perlum úr heimi tónbókmenntanna.

Á tónleikunum verður einnig frumflutt lag hátíðarinnar 2023 eftir Georg Kára Hilmarsson tónskáld við ljóð Kristjáns Vals Ingólfssonar, fyrrverandi vígslubiskups.

Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er sem fyrr Björg Þórhallsdóttir og aðgangseyrir er kr. 3.500. Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Tónlistarsjóði og Tónlistarsjóði kirkjunnar og STEFs.

Fyrri greinEyþór áfram með Selfossliðið og Jóna Margrét ráðin aðstoðarþjálfari
Næsta greinFrjálsleg, frussandi og flæðandi myndlistarnámskeið