Hildur spjallar um Nútímakonur

Í dag kl. 15 verður spjall með Hildi Hákonardóttur á sýningunni Nútímakonur í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.

Tíðarandi áttunda áratugarins og staða kvenkyns myndlistarmanna þá og nú er viðfangsefni óformlegs spjalls Hildar Hákonardóttur myndlistarmanns með meiru og Ingu Jónsdóttur safnstjóra sem kynnir verk listamannanna á sýningunni. Gestir eru einnig hvattir til þess að taka þátt í umræðum bæði með spurningum og innleggi.

Verkin á sýningunni eru olíu og akríl málverk, grafík og kolateikningar. Þau eru ýmist frá áttunda áratugnum eða nýleg verk sem endurspegla starfsferil og virkni þeirra Bjargar Þorsteinsdóttur, Ragnheiðar Jónsdóttur og Þorbjargar Höskuldsdóttur sem allar reka enn eigin vinnustofur.

Uppvaxtarár þeirra voru árin eftir heimsstyrjöldina síðari, þegar íslenskt þjóðfélag hafði tekið grundvallarbreytingum og breyttist úr hefðbundnu bændasamfélagi í nútímavætt borgarsamfélag og við blasti ný heimsmynd. Alþjóðlegir straumar í bókmenntun, myndlist og fatatísku bárust til landsins og settu sterkan svip á þjóðfélag og menningarlíf. Í þessari þróun öðluðust konur aukið frelsi, pólitískt, menntunarlega, fjárhags- og kynferðislega og til varð hin nýja kvennahreyfing sem nefnd hefur verið önnur bylgja femínisma. Hver er svo staðan í dag?

Hildur Hákonardóttir nam myndvefnað hér og í Skotlandi á sjötta áratugnum, var meðlimur í SÚM hópnum og var skólastjóri Myndlista- og handíðaskólans 1975-78 á miklum umbrotatímum. Hún var tengd ýmsum hræringum í þjóðfélaginu og tók virkan þátt í kvennabaráttu áttunda áratugarins. Hildur var safnstjóri Listasafns Árnesinga 1998-2000, en hafði áður veitt forstöðu sameiginlegu Byggða- og Listasafni Árnesinga um sjö ára skeið. Með þennan bakgrunn og íhygli Hildar má búast við áhugaverðum sjónarhornum í sýningarspjalli hennar á sunnudaginn.

Þetta er næst síðasta sýningarhelgin en sýningunni lýkur sunnudaginn 11. maí. Frá og með 1. maí er safnið opið alla daga og aðgangur ókeypis.