„Hey, má ég mála yfir þetta?“

Þóranna Ýr Guðgeirsdóttir. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Selfyssingurinn Þóranna Ýr Guðgeirsdóttir hefur heldur betur lagt sitt af mörkum við að fegra umhverfið sitt. Veggjalistaverk eftir hana má meðal annars sjá fyrir framan GK bakarí og fyrir neðan Pylsuvagninn á Selfossi.

Um þessar mundir er hún að leggja lokahönd á veggjalistaverk á einum brúarstólpa Ölfusárbrúar en þjóðsagan um Jóru í Jórukleif er þema verksins.

„Ég sá að veggurinn var graffaður, stór gröff hérna og tögg, sem er ólöglegt og gerir umhverfið leiðinlegra. Ég hafði samband við Árborg og sagði bara hey, má ég mála yfir þetta? Og ástæðan fyrir því að ég málaði Jóru er að Bragi hjá Árborg stakk upp á því við mig,“ segir Þóranna í samtali við sunnlenska.is.

Þóranna segist hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð frá fólki. „Allir kátir – fólk á öllum aldri. Það kom einn lítill krakki til mín og spurði mig hvernig ég nennti þessu,“ segir Þóranna og hlær.

Stefnan er að mála einnig vegginn á móti, þannig að brúarstólparnir verði málaðir beggja megin við gönguleiðina undir brúnni. Þóranna bætir þó við að það sé lítið eftir af sumrinu, svo að það verði að koma í ljós hvað hún nær að klára.

sunnlenska.is/Jóhanna SH

Sveitarfélagið borgar efniskostnaðinn
Þóranna fékk styrk frá Sveitarfélaginu Árborg fyrir verkefninu. „Efniskostnaðurinn er ekki brandari. Stykurinn dugar alveg fyrir öllu saman,“ segir Þóranna sem afþakkar frekari styrki fyrir verkinu.

„Það er mjög mikil umferð þegar maður er að mála, maður tekur alveg eftir því. Þannig að það er lógískt að gera eitthvað hér,“ segir Þóranna en þess má geta að fyrsti veggurinn sem hún málaði var veggurinn við FSu, þegar hún var í veggjalistaráfanga hjá Ágústu Ragnarsdóttur.

Þóranna segir að það sé gaman að sjá verkin hennar verða að veruleika á brúarstólpunum. „Það er skemmtilegt að sjá hvernig þetta kemur út, skemmtilegt að vera búin að skipuleggja þetta. Hérna eru hlutföllin allt öðruvísi heldur en á skissunum. Svo fiffar maður til. Svo verður maður að láta þetta koma vel út, það er það sem er skemmtilegast við þetta – maður verður að láta þetta slá í gegn. Ég get ekki krumpað saman eða falið vegginn, eins og maður gerir þegar maður er með eitthvað lélegt á blaði.“

sunnlenska.is/Jóhanna SH

Veðurfarið skiptir máli
„Það eru komnir 15-17 klukkutímar í þennan vegg. Það er miklu þægilegra að ná lengri lotum heldur en styttri. Sérstaklega þegar veðrið leyfir manni að gera það,“ segir Þóranna sem hefur verið að grípa í penisilinn eftir vinnu.

„Ég passa bara að það sé þurrt. Ég hef alveg lent í því að gera útlínur og svo fór ég bara heim og svo þegar ég ætlaði að halda áfram að mála var byrjað að rigna og útlínurnar dropuðu svona niður. En heppilegt að það var ekkert undir sem átti að vera hvítt svo að það slapp alveg.“

Þóranna segir að hún hafi alltaf verið að mála og teikna og er stefnan að halda áfram að gera slíkt í framtíðinni. „Það væri draumur að vinna við þetta. Ég er bara ánægð ef fólkið í kringum mig er ánægt,“ segir Þóranna að lokum.

sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinBjarki og Gunnhildur taka við veitinga- og gistiþjónustu í Skálholti
Næsta greinRangæingar þeir einu sem fögnuðu sigri