„Hentar ekki þeim sem óttast mannslíkamann“

Margrét Maack. Ljósmynd/Aðsend

Laugardagskvöldið 22. júní gefst Sunnlendingum kost á að sjá fullorðins fjölbragðasýninguna Búkalú í Hendur í höfn í Þorlákshöfn.

Sýningin sjálf er skemmtiatriðahlaðborð – þar sem kynnir leiðir á svið mismunandi fólk sem gleður áhorfendur. Svona sýningarform eru alltaf að verða vinsælla og vinsælla og býður upp á skemmtun fyrir fólk með mjög stutt athyglisspan,“ segir Margrét Maack fjöllistakona sem stendur fyrir sýningunni, í samtali við sunnlenska.is.

Engin sýning eins
„Þegar ég sendi út pósta um að þetta væri í bígerð sögðu öll sem ég hafði samband við að þau vildu vera með. Eina vandamálið var að raða upp sem fjölbreyttustum sýningum. Ég skipti sem sagt út öllum listamönnum nema sjálfri mér um hverja einustu helgi svo þetta er dásamlega fljótandi og fjölbreytt,“ segir Margrét.

Auk sýningarinnar í Þorlákshöfn verður Búkalú-sýning í Súpufélaginu í Vík þann 5. júlí og í Skyrgerðinni í Hveragerði þann 26. júlí.

Sýningar á heimsmælikvarða
„Sýningin er fullorðins og fer fram á vínveitingastöðum og húmor og kynþokki ýmiskonar er til grundvallar. Hún blandar saman kabarett, burlesque, sirkus og side-show. Ég óska eftir almennilegum þýðingum á þessum hugtökum,“ segir Margrét.

Margrét hefur haldið sýningar víðsvegar um heiminn. „Undanfarin ár hef ég verið svo heppin að geta ferðast til að sýna – ég hef tekið fleiri Bandaríkjatúra en ég get talið og tvo Evróputúra og Búkalú er uppskeruhátíð þessara ferðalaga. Mig langaði í rauninni að endurgjalda vinum greiða og gera handvaldar sýningar á heimsmælikvarða þar sem ég stefni saman því besta frá Bandaríkjunum og Evrópu í bland við íslenska skemmtikrafta.“

Sunnlendingar jákvæðir
„Ég er að halda sýninguna um allt land og sendi út pósta. Flestir svöruðu ekki en Sunnlendingar tóku sérstaklega vel í hugmyndina. Margir staðir vildu vera með en hentuðu ekki vegna stærðar eða vantaði til dæmis aðstöðu fyrir listamenn að skipta um búninga. Þetta er nefnilega meira sjónarspil en tónleikar eða uppistand,“ segir Margrét.

Aðspurð hvað sýningastaðirnar á Suðurlandi eigi sameiginlegt segir Margrét að það sé afskaplega lítið og sé það einmitt hluti af spennunni.

„Svona sýningar raðast alltaf inn á hvern stað fyrir sig, við stúderum sjónlínu og stemmningu og ég raðaði fólki á staði sem henta þeim. Sumir þurfa til dæmis lofthæð, aðrir að hægt sé að útiloka íslensku sumarnæturbirtuna og svo framvegis. Um borð er bara fagfólk sem á í litlum vandræðum með að máta sig inn í hin ýmsu rými. Jú, veistu, það sem þessir staðir sem ég valdi eiga sameiginlegt er það að ég treysti rekstraraðilum hundrað prósent og það er fólk sem ég hef unun af því að vinna með.“

Eins og fram hefur komið er Margrét enginn nýgræðingur að koma fram. „Þegar ég var hluti af Sirkus Íslands vorum við með fullorðinssýninguna Skinnsemi en hún var í sirkustjaldinu svo við höfðum mikla stjórn á aðstæðum. Þetta er fyrsta Búkalú-sumarið og sýningin er ef til vill keimlík Skinnsemi hvað varðar áhorfendahóp og efnistök, en spennan núna er fólgin í því að breyta Höndum í Höfn, Súpufélaginu í Vík og Skyrgerðinni í Hveragerði í NewYork-skan kabarettklúbb eina kvöldstund.“

Með lítinn Sunnlending í maganum
„Þetta er fyrst og fremst sýning fyrir fólk sem hefur gaman að lífinu og hlær hátt. Sýningin er bönnuð innan tuttugu ára því hún fer fram þar sem vín er veitt – og svo hentar hún ekki þeim sem óttast undur mannslíkamans. Blikk blikk.“

Þar sem sýningin er sjónarspil og krefst þess að fólk sjái, eru takmarkaðir miðar í boði á hverjum stað. Ég hvet því fólk til að kaupa ódýra forsölumiða á bukalu.net. Sömuleiðis sem það hjálpar hinum dásamlegu samstarfsvertum að ráða starfsfólk í flútti við það hversu margir koma, svo biðin á barinn verði ekki óbærileg.“

„Þetta gæti verið síðasta sýningarhrinan mín í dágóðan tíma en ég er með lítinn Sunnlending í maganum,“ en Margrét á von á barni með unnusta sínum, Tómasi Steindórssyni, samfélagsmiðlastjörnu og körfuboltamanni frá Hellu. „Þannig að ég veit ekkert hvenær ég get næst hent í svona sýningarferðalag – svo ekki missa af okkur!“ segir Margrét að lokum.

Viðburðurinn í Þorlákshöfn

Viðburðurinn í Vík

Viðburðurinn í Hveragerði 

Fyrri greinLeiklestur í Hlöðunni að Kvoslæk
Næsta greinÓmar Ingi semur við Magdeburg