Helga sýnir í safnahorninu

Þann 18. ágúst sl. opnaði ný sýning í safnahorni Gerðubergs í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Sýningin ber heitið Steinn, skæri, pappír og lyklar að himnaríki og þar er m.a. til sýnis lyklasafn Helgu Hansdóttur frá Hvolsvelli. Sýningin stendur fram á næsta sumar.

Á sýningunni eru steinar úr íslenskri náttúru, skæri af ýmsum stærðum og gerðum, pappír í formi biblíumynda og guðsorðabóka ásamt lyklum sem ef til vill ganga að himnaríki sjálfu.

Helga er forfallinn safnari. Hún hefur safnað vettlingum síðan hún fékk fallegt par í 17 ára afmælisgjöf. Vettlingarnir hennar eru í allavega ástandi; þæfðir, götóttir, viðgerðir og lítt eða jafnvel ónotaðir. Þeir hafa verið sýndir á nokkrum sýningum, m.a. á sýningunni Stefnumót við safnara I í Gerðubergi árið 2004.

Helga safnar einnig gleraugum, armbandsúrum, pennum, kveikjurum, trúðum o.fl. Söfnun lyklanna, sem nú eru sýndir í Safnarahorninu, byrjaði sem hirðusemi að halda til fallegum lyklum. Ýmsir færa Helgu lykla og á hún nú mikið safn þeirra.

Nánar á vef Menningarmiðstöðvarinnar Gerðubergs www.gerduberg.is.