Helga opnar „við sprunguna”

Í kvöld, föstudagskvöld kl. 18, opnar Helga Haraldsdóttir myndlistarsýningu í Bókasafninu í Hveragerði.

Boðið verður upp á hressingu og gott spjall og eru allir velkomnir.

Helga er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún útskrifaðist sem íþróttakennari frá ÍKÍ 1956 og stundaði nám við Handíða- og myndlistaskóla Íslands veturinn 1957-´58. Hún nam við Íþróttakennaraskólann í Oslo veturinn 1981-´82 og bætti við sig réttindum sem myndlistarkennari frá KHÍ veturinn 1988-´89. Helga starfaði síðast sem íþróttakennari á Heilsustofnun NLFÍ.

Þetta er fimmta einkasýning Helgu. Hún hefur einnig tekið þátt í fjölda samsýninga á vegum Myndlistarfélags Árnessýslu en hún hefur starfað með félaginu frá því hún flutti til Hveragerðis árið 1991. Allar myndirnar eru málaðar í olíu.

Sýningin, sem er sölusýning, stendur til 30. september og er opin um leið og safnið, virka daga kl. 13-19 og laugardaga kl. 11-14.

Fyrri greinFjölmenni á fangelsisfundi
Næsta greinVeiðidagur í Hlíðarvatni