Heimurinn ekki tilbúinn fyrir „Chance“

Hljómsveitin Moskvít. Ljósmynd/Aðsend

Hljómsveitin Moskvít sendi frá sér nýtt lag síðastliðinn föstudag og er það komið á allar helstu streymisveitur. Lagið nefnist Chance og er þriðja smáskífan af væntanlegri plötu hljómsveitarinnar, Superior Design.

Moskvít gaf út plötuna Human Error árið 2021 en mörg lög af þeirri plötu vöktu mikla athygli og fengu útvarpsspilun, til dæmis lagið Counting Teeth, sem hljómaði víða.

Human Error var consept-plata og ef hún skoðaði slæmu hliðina á mannlegu eðli þá snýr næsta plata, Superior Design, sér að leitinni að fullkomnun og hvað það þýðir, hvort sem það er gott eða slæmt.

Ellefu ára gamalt lag
Lagið Chance var samið fyrir 11 árum, þegar Sjonni, söngvari og bassaleikari hljómsveitarinnar, var 17 ára. Lagið hefur beðið ofan í skúffu síðan eftir réttum tíma, þegar heimurinn væri tilbúinn, en sá tími er reyndar ekki enn kominn – en lagið er engu að síður komið út.

„Gítarinn leiðir inn lagið með angist og dramatísku yfirbragði. En söngurinn ryður í burtu einmanaleikanum með krafti og boðar erindi vonar. Tilfinninginn byggist upp þar til hún springur út í viðlaginu með hráum hljóðfæraleik og söng og meiningin stendur nakin eftir,“ segir í tilkynningu frá Moskvít. „Boðskapurinn er sá, að þegar þú ert búinn að taka sénsinn, búinn að feila, geturðu gert það sem þú vilt. Þegar þú ert ekki lengur með tilgang í lífinu, af hverju ekki að reyna að vera hamingjusamur.“

Eins og sunnlenska.is greindi frá á dögunum hafa orðið mannabreytingar hjá hljómsveitinni en hana skipa í dag þeir Alexander Örn Ingason trommur, Sigurjón Óli Arndal Erlingsson söngur og bassi, Jón Aron Lundberg píanó og gítarleikararnir Guðmundur Helgi Eyjólfsson og Paolo Decena.

 

Fyrri greinBjóða Íslendingum hugbúnaðarlausnir fyrir neyðar- og heilbrigðisþjónustu
Næsta greinSelfoss fékk ÍBV í bikarnum