Heimildarmynd um Húsið á RÚV

Leikin heimildarmynd um Húsið á Eyrarbakka sýnd í Ríkissjónvarpinu í dag kl. 15:25.

Myndin var framleidd árið 2007 og hefur verið sýnd í Byggðasafninu við ýmis tækifæri. Þetta er í fyrsta skipti sem hún er sýnd, fullbúin, fyrir alþjóð.

Húsið var reist 1765 og var fram á 20. öld íbúðarhús kaupmanna Eyrarbakkaverslunar – eða faktora eins og þeir voru nefndir. Húsið var höfðingja- og menningarsetur og báru ýmsir íbúar þess með sér strauma heimsmenningar í tónlist og myndlist sem höfðu djúpstæð áhrif á margan heimamanninn. Einn helsti vettvangur listiðkunar og sköpunar var einmitt í stofunni í Húsinu.

Sunnlenskir leikarar ljá myndinni krafta sína en fram koma Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Erla Kristín Guðmundsdóttir, Dagur Fannar Magnússon, Elín Gunnlaugsdóttir og Gunnar Páll Júlíusson. Tónlistin sem samin var sérstaklega fyrir myndina er eftir Elínu Gunnlaugsdóttur, tónskáld á Selfossi. Andrés Indriðason samdi handrit og leikstýrði myndinni, kvikmyndataka var í höndum Jóhannesar Jónssonar.

Kaupmannasamtök Íslands er aðalstyrktaraðili myndarinnar. Einnig bárust styrkir frá Þjóðhátíðarsjóði, Menningarráði Suðurlands og Barnamenningarsjóði Sveitarfélagsins Árborgar. Sömuleiðis veittu Set ehf, Máni ÁR 70 ehf og Auðhumla svf safninu liðsinni til gerðar heimildarmyndarinnar í formi styrkja.