Heimildamyndin „Heimsmethafinn í vitanum“ sýnd á Selfossi

Kvikmyndin „Heimsmethafinn í vitanum“ verður sýnd í Selfossbíó fimmtudaginn 7. desember næstkomandi kl. 19:00 og er enginn aðgangseyrir.

Þetta er fróðleg og falleg kvikmynd um merkilegt ævistarf Óskars J. Sigurðssonar, æðrulauss manns sem hefur nú flutt til Selfoss en fékkst við veðurathuganir og vitavörslu á Stórhöfða í Vestmannaeyjum í um sextíu ár, langt frá áreiti heimsins. Þar er einna stórviðrasamast á byggðu bóli á jörðunni.

Auk vandaðra veðurathugana hafa afköst hans við fuglamerkingar verið með ólíkindum. Þau eru hornsteinn í rannsóknum á lífríkinu, þar sem uggvænleg teikn eru á lofti vegna hnattrænna breytinga. Söfnun sýna vegna bakgrunnsmælinga á mengun er síst ómerkari og er hluti af alþjóðlegum rannsóknum.

Sjón er sögu ríkari um störf þessa hægláta manns sem kvikmyndagerðarmaðurinn Jón Karl Helgason taldi tímabært að kynna fyrir alþjóð með heimildamynd sem frumsýnd var árið 2009.