Heiðra minningu Þorkels

Í dag verða nemendur tónlistardeildar Listaháskóla Íslands með dagskrá á Sumartónleikum í Skálholti til minningar um Þorkel Sigurbjörnsson, tónskáld.

Dagskráin er tengd rannsókn nemenda tónlistardeildar sem styrkt er af Nýsköpunarsjóði námsmanna og er unnin undir leiðsögn Hróðmars I. Sigurbjörnssonar. Í tengslum við rannsóknina hafa nemendur tónlistardeildar síðastliðinn vetur lagt áherslu á flutning kammer- og kórtónlistar Þorkels með aðstoð Sigurðar Halldórssonar og annarra kennara deildarinnar.

Dagskráin hefst kl. 14 með fyrirlestri nemenda um verk Þorkels, auk þess verður flutt verkið Rek (1984) fyrir klarinett og píanó.

Kl. 15 eru tónleikar sem bera yfirskriftina „Syngið Guði nýjan söng“, þar verða flutt þrjú verk: Kvöldbænir (1983) fyrir kór, Níu lög úr Þorpinu (1978) fyrir sópran og píanó og Lofsöngur (1977) fyrir einsöngvara, kór og kammersveit.

Í messu kl. 17 verða síðan fluttir sálmar eftir Þorkel Sigurbjörnsson, sálmar auk kafla úr Fjórum íslenskum þjóðlögum fyrir klarinett og píanó (1968).

Flytjendur eru kór og kammersveit Listaháskólans undir stjórn Sigurðar Halldórssonar.

Fyrri greinFergja dúk á þaki Matvælastofnunar
Næsta greinAuglýst eftir sóknarpresti í Hruna