„Hefði sjálf viljað lesa þessa bók sem unglingur“

Erna Kristín Stefánsdóttir.

Nýverið kom út bókin Fullkomlega ófullkomin eftir Selfyssinginn Ernu Kristínu Stefánsdóttur.

„Bókin er um jákvæða líkamsímynd. Ég myndi segja þetta vera hvatningarbók fyrir konur,“ segir Erna Kristín í samtali við sunnlenska.is

„Ég hef sjálf glímt við neikvæða líkamsímynd og búlimíu lengi og fékk í raun bara alveg nóg af þessum niðurrifum frá mér sjálfri alla daga. Ég fékk kvíðakast í fyrra sumar og ákvað að snúa blaðinu við að alvöru og byrjaði að iðka jákvæða líkamsímynd og sjálfsást af fullum krafti. Það hjálpaði mér einstaklega mikið og er ég komin á þann stað í dag sem ég óska öllum að komast á og þess vegna varð þessi bók til,“ segir Erna Kristín.

Aldrei of seint að byrja að elska líkamann sinn
„Ég tileinka konum bókina. Ég myndi þó samt segja þetta góðan lestur fyrir alla. Hvað varðar aldurshóp þá myndi ég segja að því fyrr því betra. Sjálf hefði ég viljað lesa þessa bók sem unglingur og einnig vil ég taka fram að það er aldrei of seint að byrja elska líkama sinn eins og hann er hér og nú,“ segir Erna Kristín.

Að sögn Ernu Kristínar gekk vel að vinna bókina. „Ég myndi segja að ég hafi verið löngu búin að skrifa hana, bæði í gegnum alls konar kvíðaköst, niðurrif og einmitt í gegnum mín fyrstu skref í self love ferðalaginu. Einnig er að finna mikið af ljósmyndum af konum af alls konar stærðum og gerðum. Reynslusögur og gagnlega punkta í átt að jákvæðri líkamsímynd,“ segir Erna Kristín.

Tilraun til að fella niður óraunhæfar staðalímyndir
Fullkomlega ófullkomin er fyrsta bók Ernu Kristínar. „Bókin er heiðarleg tilraun til þess að fella niður óraunhæfar staðalímyndir og gefa konum meira rými til þess að læra elska sjálfan sig og líkama sinn eins og hann er í dag,“ segir Erna Kristín og bætir því við að það sé aldrei að vita nema að hún gefi út aðra bók sem þessa.

„Bókin fæst í Lindex og Hagkaup á Selfossi. Fólk getur fylgst með mér á Snappinu eða Instagram undir Ernuland en þar tala ég mikið um jákvæða líkamsímynd sem hefur vakið góð áhrif. Svo minni ég á Facebook hópinn Jákvæð líkamsímynd en hann er algjör snilld,“ segir Erna Kristín að lokum.

Fyrri greinTil umhugsunar í aðdraganda jóla
Næsta greinTýndar tugþúsundir komust í réttar hendur