Haustviðburðaröð Hendur í höfn að hefjast

Föstudaginn 5. október hefst haustviðburðaröð veitingarstaðarins Hendur í höfn í Þorlákshöfn. Er það beint framhald af sumarviðburðaröðinni sem var nú í sumar.

„Í kjölfar þess að Dagný opnaði Hendur í höfn í stærra húsnæði í vor fannst okkur tilvalið að láta reyna á að hafa röð tónleika í allt sumar og sjá hvernig það myndi takast til. Í stuttu máli þá gekk það með ólíkindum vel, uppselt var á fimm tónleika af sex og mikil almenn gleði með þetta uppátæki okkar,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, viðburðarstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Tónleikar og uppistand
Ása segir að það hafi legið beint við að endurtaka leikinn með haustviðburðaröð en að þessu sinni er um bæði tónleika og uppistand að ræða.

„Að þessu sinni eru þetta fjórir mjög ólíkir viðburðir. Eyjólfur Kristjánsson ríður á vaðið með Kvöldstund með Eyfa 5. október þar sem hann fer yfir ferilinn í tali og tónum. Svo er það söngdívan Jóhanna Guðrún sem ætlar að syngja sín uppáhaldslög af sínum ferli sem spannar orðið 19 ár, ótrúlegt en satt,“ segir Ása.

„Sjötta og sjöunda nóvember kemur heimamaðurinn Jónas Sig fram ásamt hljómsveit sinni en þá er um að ræða fyrstu tónleikana af mörgum í útgáfutónleikaröð sem hann er með í tilefni útgáfu nýrrar plötu, Milda hjartað og bókar sem hann gefur út samhliða plötunni. Mjög spennandi viðburður þar. Að lokum er það uppistandarinn Sóli Hólm sem mun kitla hláturtaugar viðstaddra eins og honum einum er lagið,“ segir Ása.

Eitthvað fyrir alla
Að sögn Ásu er haustviðburðaröðin fyrir fjölbreyttan hóp fólks. „Þetta er fyrir tónlistarunnendur, matgæðinga, fólk sem þykir gaman af sögum, fólk sem lætur sér hjartans mál varða, fólk sem þykir gaman að hlæja, sýna sig og sjá aðra. Sem sagt, eiginlega alla.“

„Sætafjöldinn er takmarkaður svo það margborgar sig að tryggja sér miða í forsölu. Einnig er nauðsynlegt að panta borð ef fólk hug á því að gæða sér á veitingum fyrir tónleika. Svo er ekki úr vegi að minnast á það fyrir fólk sem er ekki vant að gera sér ferð niður í Þorlákshöfn að þetta er ekki nema skottúr frá flestum stöðum á Suðurlandinu,“ segir Ása að lokum.

Upplýsingar um viðburðina, miðasölu og fleira má finna inn á facebook síðu Hendur í höfn.

Fyrri greinStjórn SASS vill sjúkraþyrlu á Suðurland
Næsta greinBjörgun bauð lægst í dýpkun Landeyjahafnar