Hátíðarsamkoma í tilefni 250 ára afmælis Hússins

Húsið á Eyrarbakka.

Í sumar eru 250 ár liðin síðan Húsið á Eyrarbakka var byggt. Af því tilefni boðar Byggðasafn Árnesinga til hátíðarsamkomu í Húsinu á Eyrarbakka sunnudaginn 9. ágúst kl. 14.

Á samkomunni verða flutt erindi og ávörp auk þess sem tónlist tengd Húsinu verður flutt. Þau sem koma fram á samkomunni eru m.a. Ásta Kristrún Ragnarsdóttir, Valgeir Guðjónsson, Halldór Blöndal, Guðmundur Ármann Pétursson og Hlín Pétursdóttir. Léttar veitingar verða í boði. Allir velkomnir.

Húsið var byggt af Almenna verslunarfélaginu í Kaupmannahöfn árið 1765 sem árið áður hafði fengið einkarétt á verslun á landinu. Ekki er vitað hverjir byggðu Húsið. Talið er víst að það hafi verið danskir smiðir, en Þorgrímur Þorláksson múrari á Bessastöðum hlóð upp reykháfinn, eldstæði og bakaraofn. Munnmælasögur segja að ekkert timbur hafi verið selt úr Eyrarbakkaverslun þetta sumarið því það hafi allt farið í nýbygginguna.

Húsið á Eyrarbakka er á meðal merkustu menningarverðmæta sem varðveitt eru á landsvísu. Þess vegna er vel við hæfi að Húsið sé umgjörð um Byggðasafn Árnesinga. Það eru ekki allir sem geta boðið upp á sýningu í 18. aldar húsi og þar liggur styrkleiki safnsins.

Húsið stendur enn á sínum upprunalega stað og mynda húsin tvö, Húsið og Assistentahúsið, einstakt sjónarhorn þegar horft er til Hússins frá Eyrargötu. Það er margt forvitnilegt í kringum þetta gamla stílhreina hús og merka sögu þess. Það bíður þess að gestir líti það augum. Það er almenningseign og öllum velkomið að drepa þar inn fæti.

Fyrri greinVeiðimenn við Ölfusá brosa út að eyrum
Næsta greinHalldóra þjónar Oddaprestkalli