Hátíðarmessa í Þorlákshöfn

Í dag kl. 14 verður hátíðarmessa í Þorlákskirkju en 30 ár eru síðan bygging kirkjunnar hófst.

Það eru ekki nema 30 ár síðan að bygging þessarar fallegu kirkju hófst. Hún reis skuldlaus á sex árum fyrir eldmóð fólksins í byggðinni sem vann gríðarlega mikla sjálfboðavinnu, fyrir frumkvæði eldhuga á borð við Ingimund Guðjónsson söngstjóra og organista, fyrir dugnað kvenfélagsins sem safnaði peningum í kirkjubyggingasjóð Hlyns Sverrissonar, fyrir gjafmildi og góðhug einstaklinga og félaga, fólkið reisti sér kirkju í bókstaflegum skilningi.

Kannski var Þorlákshöfn upp á sitt besta á þessum árum, þangað hafði ungt fólk streymt að hvaðanæfa uppfullt af bjarstsýni og stórhug. Hagur hins unga byggðarlags var fyrir öllu, fólk hjálpaðist að. Kirkja var byggð þar sem hún blasti við hverju húsi, hverjum manni, stílhrein línan kirkju og kirkjugarðs varð einkennismerki fyrir Þorlákshöfn.

Þetta verður rifjað upp í hátíðarmessu í dag kl. 14 og við vonumst svo sannarlega eftir að sjá sem flesta af velunnurum kirkjunnar og íbúum héraðs og staðar. Séra Svavar Stefánsson prédikar og séra Tómas Guðmundsson þjónar fyrir altari ásamt sóknarpresti. Á eftir verður rjómakökukaffi í Ráðhúsinu.

Þorlákskirkja var vígð var af biskupi Íslands herra Pétri Sigurgeirssyni þann 28. júlí 1985. Grunnur kirkjunnar var helgaður og fyrsta skóflustungan tekin 28. apríl 1979.
Þorlákskirkja (hin forna) í Þorlákshöfn var rifin um 1770 og hafði þá staðið í að minnsta kosti í 250 ár og ef til vill í 450 ár ef marka má afrit Vilcninsmáldaga.

Árið 1996 var nýtt pípuorgel smíðað af Björgvini Tómassyni tekið í notkun. Aftan Altaristaflan er múrrista eftir Gunnstein Gíslason. Hún heitir “Herra bjarga þú mér” og byggir á 30. versi í 14. kafla Matteusarguðspjalls. Teikningar á útihurð eru eftir Jörund Pálsson. Útskurður er unnin af Erlendi Magnússyni í Hveragerði. Tákn kirkjunnar minna á hafið.

Fiskar (ICHTHIS) eru í glugga yfir innri dyrum, á reku til moldunar inni, á kaleik og hökkli sem er eini handprjónaði hökullinn á landinu, prjónaður úr kambgarni af Gunnari Markússyni skólastjóra og kirkjumanni.

Byggingameistari kirkjunnar var Sverrir Sigurjónsson. Sóknarnefndaformenn hafa verið þrír. Fyrst Ingimundur Guðjónsson, þá Gunnar Markússon og síðustu átján árin Ellen Ólafsdóttir.

Sr. Baldur Kristjánsson.

Fyrri greinÚtlitið í byggingariðnaði aldrei verra
Næsta greinJónas á Merkigili í kvöld