Hangikjöt og handverk á jólatorginu

Markaðirnir á Jólatorginu á Selfossi verða opnir á morgun laugardag milli kl. 14 og 18. Nýir seljendur koma inn og núna bætist við hangikjötssala beint frá býli.

Einnig eru í boði skartgripir, prjónavörur, steinakarlar, handverk og ljúffengt kakó á aðeins 100 kr.

Þétt dagskrá verður á sviðinu allan daginn og munu t.d leikskólabörn úr sveitarfélaginu stíga á svið kl. 15 og syngja nokkur klassísk jólalög undir handleiðslu Örlygs Benediktssonar og Guðnýjar Birgisdóttur.

Að söng loknum verður slegið upp jólaballi og aldrei að vita nema jólasveinninn láti sjá sig. Eyþór Ingi kíkir svo í heimsókn um 16.

Einnig munu ungmenni úr félagsmiðstöðinni Zelsíuz koma fram á sviðinu, Magnús Kjartan Eyjólfsson stígur á stokk, Anton Guðjónsson úr Glundroða og söngkonurnar Hulda Kristín og Fríða Hansen ásamt Tómasi Smára.

Laugardaginn 14.desember koma síðan jólasveinarnir úr Ingólfsfjalli og má búast við miklum látum í sveinunum líkt og vant er þegar þeir koma fyrst til byggða.

Fyrri greinBúist við blindhríð í Mýrdalnum
Næsta greinUpplýsingamiðstöðvar verði einnig öryggismiðstöðvar