Það verður nóg um að vera fyrir alla aldurshópa í Þorlákshöfn dagana 2.-6. ágúst þegar hátíðin Hamingjan við hafið verður haldin. Allir viðburðir á vegum Sveitarfélagsins Ölfuss eru gjaldfrjálsir og öllum aðgengilegir.
Hápunktarnir eru án efa glæsilegir stórtónleikar í Skrúðgarðinum í Þorlákshöfn laugardagskvöldið 6. ágúst þar sem fram koma Bassi Maraj, Reykjavíkurdætur, Albatross, Jónas Sig, Ragga Gísla, Lay Low, Júlí Heiðar, Fjallabræður og Lúðrasveit Þorlákshafnar. Þá munu einnig koma fram Anna Magga, Emilía Hugrún og heimahljómsveitirnar Sunnan 6, Moskvít og DJEJ.
Hverfapartý í bræðslunni
Þegar Hamingjan við hafið var haldin síðast af fullum krafti (fyrir þið vitið hvað) þá var í fyrsta sinn haldið hverfapartý í gömlu bræðslunni, þar sem hverfin buðu upp á pálínuboð og tónlistaratriði og Eyjamaðurinn og lúðrasveitarstjórnandinn Jarl Sigurgeirsson stjórnaði fjöldasöng. Fyrir mörgum var þetta hápunkturinn 2019 og því kom ekki annað til greina en að endurtaka þennan dagskrárlið. Hverfapartý í bræðslunni verður föstudagskvöldið 5. ágúst, en það hefst á litaskrúðgöngu þar sem Lúðrasveit Þorlákshafnar leiðir alla beint í fjörið í bræðslunni.
Það verður nóg um að vera fyrir börn á öllum aldri, Leikhópurinn Lotta verður í Skrúðgarðinum í boði Kvenfélags Þorlákshafnar, froðufjörið verður á sínum stað, sundlaugapartý og tónleikar á sundlaugabakkanum með unghljómsveitinni Gulllax. Það verður heljarinnar krakkafjör á lóðinni við Grunnskólann laugardaginn 6. ágúst þar sem Sirkus unga fólksins verður með ýmsar uppákomur, leikvöllur með opnum efnivið, vatnaboltar, nerf völlur og hoppukastalar.
Garðtónleikar um allan bæ
Það verður líka spennandi að heimsækja listafólk í Þorlákshöfn sem býður á sýningar á laugardaginn 6. ágúst, svo við tölum nú ekki um spennuna sem er að magnast upp á milli hverfanna sem eru nú að keppast við að stilla upp sterkum liðum fyrir fótboltakeppni hverfanna sem fram fer miðvikudagskvöldið 3. ágúst.
Þessu til viðbótar verða þrennir viðburðir á vegum einkaaðila og félagasamtaka sem setja vissulega skemmtilegan lit á dagskrá Hamingjunnar við hafið. Hljómlistafélag Ölfuss stendur fyrir garðtónleikum um allan bæ fimmtudagskvöldið 4. ágúst þar sem stórkostlegt tónlistarfólk úr Þorlákshöfn kemur fram í görðum hjá fólki sem er svo elskulegt að bjóða þá fram fyrir þetta tilefni. Að þessu sinni er viðburðurinn fjáröflun fyrir uppbyggingu á upptöku- og æfingarrými Hljómlistafélagsins og fá þau sem kaupa miða armband sem gildir á alla tónleika kvöldsins.
Körfupartý Þórs verður á sínum stað í Versölum á föstudagskvöldinu og á laugardagskvöldinu verður stórdansleikur þar sem fram koma Jónsi (í svörtum fötum) og Unnur Birna ásamt hljómsveit. Miðasalan á þessa viðburði verður auglýst síðar.
Dagskráin verður aðgengileg á netinu og á plakötum víða. Hún verður ekki prentuð út og borin í hús vegna umhverfissjónarmiða.