Hamfarir og hætta á heimsstyrjöld

Suðurlandsskjálftarnir vorið 2008 eru meðal frásöguefna í nýrri bók Sigurðar Boga Sævarssonar blaðamanns.

Bókin, sem nefnist Fólk og fréttir – atómsprengjan og önnur tíðindi, kemur í verslanir nú í vikunni. Um er að ræða framhald bókar með sömu yfirskrift sem kom út fyrir rúmum tveimur árum. Þar voru fjölmiðlamenn helstu viðmælendur en nú eru fleiri kallaðir til og kaflarnir sjö í bókinni eru fyrst og fremst frásagnir af einstaka viðburðum eða málum sem markað hafa skil í þjóðarsögunni.

„Mér fannst liggja beint við að skrifa um skjálftana. Ég hafði á löngum tíma skráð ýmsar frásagnir eftir Sunnlendingum af þessum náttúruhamförum sem mér fannst nauðsynlegt að gefa út. Og kannski mátti ég ekki seinni vera; þó aðeins fjögur ár séu liðin frá þessum miklu atburðum er sumt að fyrnast og fenna yfir.

Mér fannst líka mikilsvert að eiga skráð viðtal við bónda í Flóanum frá árinu 1989 sem þá lýsti fyrir mér jarðskjálftunum 1896 -og geta fléttað þá frásögn saman við atburði sem gerðust 112 árum síðar,“ segir Sigurður Bogi sem hefur starfað við blaðamennsku í áraraðir og var einn af stofnendum Sunnlenska fréttablaðsins. Síðustu ár hefur hann starfað á Morgunblaðinu.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu