Hamarinn og fjaran veita innblástur

Sandra Clausen og hundurinn Vali. Ljósmynd/Dagný Dögg Steinþórsdóttir

Nýverið kom út skáldsagan Hrafninn eftir rithöfundinn Söndru Clausen. Bókin er nýjasta skáldsagan í Hjartablóðs-seríu Söndru.

„Ég hef alla mína tíð haft áhuga á skrifum. Fór að semja ljóð ung að aldri sem þróuðust út í sögur og seinna meir heila bókaseríu sem ég skrifa fyrir Storytel,“ segir Sandra í viðtali við sunnlenska.is.

„Hjartablóðs-serían eru sögulegar skáldsögur með erótísku ívafi. Bækurnar eru örlagasögur og sögusviðið er Svíþjóð fyrir 400 árum síðan. Þær eru orðnar sex talsins, sú nýjasta heitir Hrafninn sem er spennuþrungin. Bókunum hefur verið líkt við Ísfólkið sem og sögunni af Bridgeton fjölskyldunni þar sem örlög fólks á árum áður eru rakin.“

„Hugmyndin af bókunum vaknaði í kringum fermingaraldur en söguþráður og persónusköpun hefur mótast með hækkandi aldri. Sú fyrsta kom út er ég var rúmlega þrítug, árið 2016 og það er orðin viss hefð að það komi ein bók út á ári. Ég er yfirleitt tæpt ár að skrifa eina bók,“ segir Sandra sem er búsett í Hveragerði.

Sandra segir að hennar helsti innblástur í skrifum sé náttúran. „Segja má að söguþráðurinn komi til mín þegar ég fæ næði ein með sjálfri mér. Þá verður annaðhvort skógurinn við Hamarinn hér í Hveragerði fyrir valinu eða Eyrarbakki þar sem ég fæ gjarnan hús í gegnum rithöfundasambandið. Þar sæki ég kraftinn í hafið og horfi oft löngum stundum á bárurnar berja klettana. Þá fer hugaraflið af stað og sköpun verður til.“

„Þetta eru fullorðinsbækur þar sem lítið er dregið úr raunveruleika þess tíma og því ekki fyrir ungmenni en mér finnst jákvætt að heyra að karlmenn njóti góðs af þeim, svo þær virðast höfða til beggja kynja. Ég held því ótrauð áfram að skrifa, samhliða því að nudda og rækta Golden hunda. Ég á allt eins von á að bækurnar verði tíu talsins og sú næsta, Nornin, er væntanleg að ári,“ segir Sandra að lokum.

Sandra og hundurinn Vali. Ljósmynd/Dagný Dögg Steinþórsdóttir
Fyrri greinÞrenn umhverfisverðlaun í Rangárþingi eystra
Næsta greinEndurskoðuð stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Dyrhólaey