Halldóru Thoroddsen minnst í Bókakaffinu í dag

Harpa Rún og Halldóra í Bókakaffinu á Selfossi. Ljósmynd/Gunnar Páll Pálsson

Skáldið Halldóra Thoroddsen kvaddi fyrr í þessum mánuði. Skrif hennar snertu marga strengi og skarðið er djúpt.

Í dag, föstudaginn 31. júlí, verður hennar minnst í Bókakaffinu á Selfossi, en það er rekið samhliða bókaútgáfunni Sæmundi sem gaf út síðustu verk Halldóru.

Þær Harpa Rún Kristjánsdóttir og Halldóra Ósk Öfjörð hafa báðar, með hléum, starfað í Bókakaffinu undanfarin ár. Segja má að bókin Tvöfalt gler marki upphaf vináttu þeirra, og skipar því höfundur hennar stóran stað í hjarta þeirra.

Mig langar að geta skrifað svona
„Fyrsta daginn minn í Bókakaffinu vann ég með Hörpu og hún rétti mér Tvöfalt gler og sagði mér að lesa. Þetta væri ein besta bók sem hún hefði lesið,“ segir Halldóra og bætir við að þá hafi ekki verið aftur snúið.

Harpa Rún tekur undir þetta. „Þegar ég las þessa bók fyrst upplifði ég eitthvað svo ótrúlega sterkt – ég man eftir mér með gæsahúð uppí rúmi yfir textanum, orðfærinu og efninu. Þetta er svo ótrúlega nettlega gert að áhrifin voru yfirþyrmandi. Mig langar að geta skrifað svona.“

„Við áttum óvænt vakt saman á föstudaginn, eins og reyndar líka daginn sem Halldóra kvaddi. Okkur langaði að votta henni virðingu, minnast hennar og sýna þakklæti í verki. Þakklæti fyrir verkin,“ segja þær stöllur.

Ætlum að lesa úti og inni og allt um kring
Ekki verður um hefðbundinn upplestur að ræða heldur mun andinn svífa yfir vötnum, en þær ætla að lesa uppáhaldsbrot úr verkum hennar. Halldóra skrifaði bæði ljóð og örsögur auk lengri verka, uppfull af húmor, sársauka og sannleika, svo af nægu er að taka.

„Ef það er rólegt lesum við upp, ef það er brjálað bjóðum við fólki að lesa sjálft. Sumu verður streymt, annað tekið upp til að sýna seinna. Við ætlum að lesa úti og inni og allt um kring. Bjóða uppá ljóð með kaffinu, örsögur með kökunni, en fyrst og síðast bækur, bækur, bækur.“

Þær undirstrika að hugmyndin sé ekki fastmótuð og formið laust í samræmi við það. Ekkert sé bannað og allt geti gerst.

Dagskráin er því án tímasetningar en gestir hvattir til að biðja um upplestur eða í það minnsta vera viðbúnir að hann bresti á með litlum fyrirvara, á milli kl. 13 og 16.

Fyrri greinTöðugjöldum 2020 aflýst
Næsta greinBrúarhlaupinu slegið á frest