Haldið upp á aldarafmæli félagsheimilisins Gimli

Félagsheimilið Gimli á Stokkseyri. Mynd úr safni.

Fyrsta vetrardag, laugardaginn 23. október, frá kl. 13 til 18 verður ljósmyndasýning og tónleikar á BrimRót, Hafnargötu 1, Stokkseyri í tilefni aldarafmælis félagsheimilisins Gimli.

Gimli hefur gegnt margvíslegu hlutverki gegnum árin og alltaf verið mikilvægur hluti af samfélaginu á Stokkseyri hverju sinni. Þar hafði læknir aðstöðu, almenningssturtur, fundaraðstaða, bókasafn, rafstöð á neðri hæð. Gimli hefur líka hýst listafólk af ýmsu tagi og verið sýningarsalur, æfingaraðstaða fyrir kóra og hljómsveitir og leiksýningar enda var gott svið á efri hæðinni.

Hver man ekki eftir því þegar bandaríski listamaðurinn William Labev hélt sýningu í Gimli, heillaður af Stokkseyri og fullur af eldmóð, árið 1993? Það sama ár var líka haldinn í Gimli hitafundur vegna stöðu atvinnumála og frystihússins Árnes.

Tíu árum seinna rann Dave Grohl, trommari Nirvana, á hljóðið af hljómsveitaræfingu sem haldin var í húsinu en hann var á landinu með hljómsveit sinni Foo Fighters. Hann hefði átt að líta við á áramótaball á Gimli. Þau voru óviðjafnanleg.

Hljómsveitin Nilfisk á æfingu í Gimli. Ljósmynd/BIB

Saga Gimlis er auðvitað þannig að henni verður varla gerð skil á einum dagparti og mun sýningin fá að standa fram í nóvember. Á sýningunni verða myndir frá hinum ýmsu samkomum í Gimli yfir árin bæði úr einkasöfnum og ljósmyndir úr fjölmiðlum.

Seinustu ár hefur BrimRót hefur haft aðstöðu á efri hússins og þá hefur Gimli gallerí verið á neðri hæðinni í mörg ár.

Í tilefni afmælisins verður einnig blásið til tónleika á BrimRót sem hefjast kl. 16. Þar koma fram tónlistamenn búsettir á Stokkseyri, Kira Kira sem nýverið frumsýndi stuttmynd sína Eldingar eins og við á RIFF, Tanya Pollock og Júlíus Óttar Björgvinsson. Léttar veitingar í boði.

Fyrri greinStórmót í boccia á Selfossi um helgina
Næsta greinGlæsilegir jólatónleikar í Þorlákshöfn