Haldið upp á 150 ára afmæli Guðbjargar í Múlakoti

Á morgun, sunnudag, verður afmælishátíð í Múlakoti vegna 150 ára afmælis Guðbjargar Þorleifsdóttur.

Guðbjörg Þorleifsdóttir var fædd þann 27. júlí árið 1870 og var húsfreyja í Múlakoti í Fljótshlíð. Hún kvæntist Túbal Magnússyni frá Kollabæ í Fljótshlíð og stóðu þau fyrir búi í Múlakoti til 1934 en þá tók sonur þeirra Ólafur Túbals við búskapnum. Árið 1897 hóf Guðbjörg skóg- og blómarækt í Múlakoti en þá sótti bróðir hennar skógarhríslu í Nauthúsagil og var það fyrsta tréð í garðinum. Guðbjörg helgaði sig garðræktinni og varð garður hennar þjóðkunnur. Hann hefur nú verið friðaður ásamt elstu húsum í Múlakoti. Guðbjörg lést þann 8. júlí árið 1958.

Á afmælisdagskránni, sem hefst kl. 15 í Múlakoti, munu flytja ávörp þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála, Elínborg Sigurðardóttir formaður SSK, Ómar Valdimarsson formaður Garðyrkjufélags Íslands, Björgvin Eggertsson deildarstjóri Landbúnaðarháskólans á Reykjum og séra Sváfnir Sveinbjarnarson. Björn Barnason, formaður Vinafélags Múlakots, mun setja samkomuna og Maríanna Másdóttir flytja tónlist.

Að því loknu verða kaffiveitingar og opið hús í Múlakoti.

Fyrri greinEinstefna hjá Árborg
Næsta greinDýrmæt stig Hamars á erfiðum útivelli – KFR og ÍBU töpuðu