Gunnsteinn hlutskarpastur í kórlagakeppninni

Gunnsteinn Ólafsson.

Vinningshafi Kórlagakeppni á Suðurlandi 2021 hefur verið valinn og var þar hlutskarpastur Gunnsteinn Ólafsson, tónlistarmaður og tónskáld, með verkið Heilög Sesselja.

Verkið þykir stórt, flókið og spennandi tónverk sem reynir á ystu mörk raddanna. Verkið skarar einnig framúr varðandi frumleika.

Aukaverðlaun fær Björn Önundur Arnarsson með verkið Dagarnir, sem er snoturt verk með skemmtilegt tónmál, áhugaverða hljóma og aðgengilegt fyrir flesta kóra.

Dómnefndina skipuðu þau Magnea Gunnarsdóttir söngkona og tónlistarkennari, Ingveldur Ýr Jónsdóttir söngkona, kórstjóri og formaður FÍK og Gunnar Gunnarsson organisti.

Kvæðin tileinkuð Páli á Húsafelli
Gunnsteinn Ólafsson fæddist árið 1962 á Siglufirði en ólst upp í Kópavogi. Hann hefur samið fjölmörg kór- og einsöngslög og ævintýraópera þeirra Böðvars Guðmundssonar Baldursbrá var frumsýnd árið 2015. Gunnsteinn starfar jöfnum höndum sem kór- og hljómsveitarstjóri og kennari við LHÍ auk þess að sinna tónsmíðum.

Kórverkið Heilög Sesselja var samið árið 2019 í tilefni af sextugsafmæli Páls Guðmundssonar myndlistarmanns á Húsafelli en hefur aldrei verið flutt. Það er við tvö stutt kvæði sem Thor Vilhjálmsson orti um verndardýrling tónlistarinnar heilaga Sesselju og um náttúruna á Húsafelli, en heilög Sesselja var einmitt verndardýrlingur kirkjunnar á Húsafelli í kaþólskum sið. Kvæðin tileinkaði Thor Páli vini sínum á Húsafelli.

Kórlagakeppni á Suðurlandi 2021 var styrkt af SASS og Tónsmiðju Suðurlands.

Fyrri greinÖlvaður með barn í bílnum
Næsta greinBotnaði bílinn við Botna