Gunnhildur útnefnd sveitarlistamaður Rangárþings eystra

Christiane Bahner, formaður Markaðs- og menningarnefndar, Gunnhildur Þórunn Jónsdóttir og Sigurmundur Páll Jónsson, markaðs- og kynningarfulltrúi. Ljósmynd/Aðsend

Markaðs- og menningarnefnd Rangárþings eystra útnefndi Gunnhildi Þórunni Jónsdóttur, listmálara, sem sveitarlistamann Rangárþings eystra árið 2025.

Gunnhildur er fædd og uppalin í Rangárþingi eystra og hefur getið sér gott orðspor sem listamaður, bæði hér heima og erlendis. Hún málar aðallega hesta og sauðfé, en landslagsmyndir hennar eru einnig vinsælar. Listaverk eftir Gunnhildi prýða heimili margra landsmanna, sérstaklega hestamanna, en hún hefur meðal annars málað verðlaunaplatta fyrir hestamót og listaverk fyrir sýningar, svo sem á Degi sauðkindarinnar. Hún hefur einnig tekið þátt í ýmsum samsýningum og haldið einkasýningar.

Gunnhildur tekur einnig að sér að mála eftir pöntun og er eftirspurnin slík að hún hefur þurft að loka fyrir pantanir með góðum fyrirvara fyrir hver jól.

Margar góðar tilnefningar bárust frá íbúum en það var samhljóða álit nefndarinnar að Gunnhildur Þórunn væri vel að þessum titli komin. Verðlaunin voru afhent á Kjötsúpuhátíðinni á dögunum.

Fyrri greinJón Bjarni og Hera sigruðu í Kastþraut Óla Guðmunds
Næsta greinAlexander og Eric Máni Íslandsmeistarar