Gunnar sýnir þúfur í Miðgarði

Ljósmyndarinn Gunnar Þór Nilsen hefur opnað sýningu í Miðgarði á Selfossi þar sem viðfangsefnið er þúfur í íslenskri náttúru.

“Þetta er draumur að rætast að sýna loksins á heimaslóðunum,” segir Gunnar, sem býr nú í Reykavík eftir nokkurra ára veru í Danmörku.

Gunnar segir þúfurnar hafa dýpri merkingu en margan grunar. “Þegar frost og þíða glíma um yfirráð yfir hitamælum bitnar það á undirlendinu sem bólgnar út og við það fæðist þúfa. Þúfur eru viðvörunarmerki um að lífsskilyrði hér séu slæm. Vinsamleg tilmæli jarðarinnar um að við ættum að leita annað, hér sé vart byggilegt.”

Sýningin er opin á opnunartíma Miðgarðs og stendur fram að jólum.